Opin afplánunarúrræði ódýrari fyrir samfélagið

Helgi Gunnlaugsson prófessor í afbrotafræði við Háskóla Íslands.
Helgi Gunnlaugsson prófessor í afbrotafræði við Háskóla Íslands. Samsett mynd/Sigurður Bogi

Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði við Háskóla Íslands, kveðst finna fyrir breyttum viðhorfum til afplánunar og fanga á síðustu áratugum. Hann segir mikilvægt að halda áfram að fjölga opnum afplánunarúrræðum.

„Mér finnst ég merkja meiri skilning hjá þeim sem eru fyrir þessum málaflokki á nauðsyn endurhæfingar og bata, miðað við þegar ég hóf að rannsaka þetta,“ segir Helgi í samtali við mbl.is. 

Spurður út í álit sitt á skýrslu Ríkisendurskoðunar um málefni Fangelsismálastofnunar segir hann vissulega mega skoða margt til bæta stöðu fangelsismála hér á landi. 

„Það er enginn draumur að vera í fangelsi,“ segir Helgi en bætir við að einnig megi draga margt fram sem jákvætt er í samanburði við erlend fangelsi. 

Félagsleg veröld í íslenskum fangelsum 

Fámenni í fangelsum á Íslandi skapi að hans mati aðstæður þar sem félagsleg veröld fanga og fangavarða fái rými til að blómstra meira, þá einna helst hvað varðar samskipti þeirra á milli. 

„Hér hafa fangar og starfsmenn færi á að kynnast,“ segir Helgi og segir það oft á tíðum gera samskiptin mannúðlegri og skapa jákvæðari anda í fangelsum. 

„Ef við berum okkur saman við Norðurlöndin, ég tala nú ekki um ef við berum okkur saman við Bandaríkin og Bretland og Ástralíu þar sem við erum að tala um hundruði eða þúsundir í fangelsum, þar sem samskipti eru mjög ópersónuleg og einkennast af mjög skýrri valdskiptingu eða stigveldi.“ 

Erlendir fangar hagi sér vel

Segir Helgi það til að mynda virðast hafa jákvæð áhrif á erlenda fanga í fangelsum hér á landi. Langt í frá allir þeirra séu innflytjendur heldur svokallaðir glæpatúristar sem hingað komi til að fremja glæpi, svo sem fíkniefnasmygl, auðgunarglæpi eða jafnvel ofbeldisglæpi. 

Margir þeirra hafi reynslu af verri kjörum og samskiptum í erlendum fangelsum og séu því í raun sáttir við að afplána hér. Vissulega séu þar oft tungumálaörðuleikar sem geti gert erfitt fyrir, en margir erlendra fanga finni til hvata til að haga sér vel.

„Þeir reyna að vera ekki til vandræða til að eiga ekki á hættu að vera sendir heim.“

Helgi segir mikilvægt að fjölga opnum úrræðum enda séu flestir …
Helgi segir mikilvægt að fjölga opnum úrræðum enda séu flestir fangar ekki hættulegir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Opin úrræði auðvelda endurkomu í samfélagið

Helgi segir stóran hluta vandans innan fangelsismálastofnunar vissulega einkennast af fjársvelti og mönnunarvanda sem Ríkisendurskoðun sýni skýrmerkilega fram á í sinni skýrslu. 

Umbætur á húsnæði Litla-Hrauns og uppbygging nýs fangelsi séu vissulega mikilvægir liðir í að bæta kerfið, en Helgi bendir einnig á mikilvægi þess að halda áfram að fjölga opnum úrræðum, nýta rafrænt eftirlit og samfélagsþjónustu í ríkari mæli.

Hann segir slíkum úrræðum hafa fjölgað mikið síðan um aldamótin og auðveldi endurkomu fanga í samfélagið, stytti eða komi í veg fyrir afplánun í fangelsi og sé mun ódýrari fyrir skattgreiðendur. 

Flestir fangar ekki hættulegir

Flestir fangar sem afpláni dóma hér á landi séu hvorki hættulegir sjálfum sér né öðrum og því vert að gefa þeim færi á að sækja vinnu eða nám samhliða afplánun.

„Varðandi þessa nýju fangelsisbyggingu á Hrauninu þá finnst mér að menn ættu að hanna það þannig að það geti, að minnsta kosti að hluta til, verið opið úrræði,“ segir Helgi.

Hann kveðst ekki telja það hafa áhrif á strok enda hafi það almennt ekki verið vandamál til þessa. Erfitt sé fyrir fanga að yfirgefa landið eða fela sig til lengri tíma á lítilli eyju og því komist menn í mesta lagi upp með nokkra daga sem sé varla þess virði. 

Fangelsið á Hólmsheiði er ætlað sem móttöku- og gæsluvarðhaldsúrræði.
Fangelsið á Hólmsheiði er ætlað sem móttöku- og gæsluvarðhaldsúrræði.

Færri úrræði fyrir konur

Helgi kveðst einnig ánægður að sjá stefnu varðandi málefni kvenna í fangelsum í skýrslunni,  en hann segir stöðu þeirra almennt lakari en karlkyns fanga. 

„Og aðstæður karlanna eru ekkert til að hrópa húrra fyrir.“  

Hann segir kvenfangelsi að miklu leyti verr búin og að færri úrræði standi konum til boða t.d. hvað varðar opin afplánunarúrræði og menntunarmöguleika. 

Konur séu einnig oftar en ekki vistaðar til lengri tíma í fangelsinu á Hólmsheiði, sem sé í raun einungis ætlað sem móttöku- og gæsluvarðhaldsfangelsi.  

Ekki börnin sem hafa brotið af sér

Þá nefnir Helgi einnig málefni og réttindi barna. Umboðsmaður barna hafi í samráði við lagadeild og afbrotafræðideild unnið skýrslu í fyrra um stöðu barna þeirra sem afplána fangelsisdóma, en Helgi segir stöðu þeirra bága.

Margir foreldrar sem sitji inni og aðstandendur þeirra utan fangelsisins vilji jafnvel ekki í sumum tilfellum að barnið heimsæki foreldri í afplánun vegna nöturlegrar aðstöðu sem sé einfaldlega ekki börnum bjóðandi. 

„Við sjáum það til samanburðar á Norðurlöndunum að aðstæður eru allt aðrar og það er hægt að hafa þetta á hátt þar sem fangar geta átt samverustund með börnum sínum.“

„Börnin hafa ekki brotið af sér, það á ekki að refsa þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert