Alþingi samþykkti í dag að veita Grindvíkingum tímabundinn fjárhagslegan stuðning vegna aukins húsnæðiskostnaðar í kjölfar náttúruhamfaranna. Íbúum Grindavíkur var gert að yfirgefa bæinn þann 10. nóvember.
Frumvarp þess efnis var samþykkt af öllum þeim 47 sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni á Alþingi í dag.
Markmið laganna er að lækka húsnæðiskostnað Grindvíkinga sem þurfa að leigja húsnæði til íbúðar utan Grindavíkurbæjar vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga.
Til að mæta húsnæðisþörfinni hefur m.a. verið leitað til Bríetar leigufélags um að kaupa allt að 150 nýjar íbúðir. Þá mun Bjarg íbúðafélag koma að því að mæta sérstaklega húsnæðisþörf tekjulægri heimila í Grindavík með mögulegum kaupum á allt að 60 íbúðum.
Þá verður sett í forgang að tryggja Grindvíkingum húsnæði til leigu meðan á almannavarnaástandi og rýmingu stendur og eftir atvikum lengur ef þörf krefur.