Sterk í stærðfræði en náttúruvísindin úti í móa

Ólíkt nemendum flestra landa stóðu stúlkur og drengir á Íslandi …
Ólíkt nemendum flestra landa stóðu stúlkur og drengir á Íslandi sig jafn vel í stærðfræðilæsi. Ljósmynd/Colourbox

Í PISA 2022 var sérstök áhersla á stærðfræði og fleiri prófverkefni en áður reyndi á stærðfræðilega rökhugsun nemenda. Fimmtán ára nemendur á Íslandi stóðu sig ekki eins vel í stærðfræðilæsi og jafnaldrar sínir á Norðurlöndunum eða nemendur að jafnaði í ríkjum OECD.

Fram kemur í samantektinni, að frammistaðan í síðustu fyrirlögn hafi verið rétt yfir meðaltali OECD en líkt og í mörgum þátttökulöndum dalaði hún talsvert.

„Stærðfræðilæsi er þó áfram sterkasta svið íslenskra nemenda í PISA. Hlutfall nemenda sem búa að minnsta kosti yfir grunnhæfni á sviðinu er 66% en hún er nauðsynleg til að takast á við prófverkefni sem reyna á flóknari rökhugsun eða innihalda upplýsingar úr fleiri en einni átt. Ólíkt nemendum flestra landa stóðu stúlkur og drengir á Íslandi sig jafn vel í stærðfræðilæsi.“

Frammistaðan dalað meira og fáir nemendur búa yfir afburðahæfni

Þá kemur fram, að læsi á náttúruvísindi í PISA meti færni nemenda í að meta og veita vísindalegar útskýringar, beita vísindalegri nálgun og túlka gögn og rök á vísindalegan hátt.

Eins og í könnunum PISA frá árinu 2012 stóðu íslenskir nemendur sig ekki eins vel á sviðinu og jafnaldrar sínir á Norðurlöndunum eða í ríkjum OECD að jafnaði, að því er segir í samantektinni.

„Frá síðustu könnun hefur frammistaða á sviðinu dalað meira hér á landi en að meðaltali í ríkjum OECD og á hinum Norðurlöndunum. Hlutfall íslenskra nemenda með grunnhæfni í læsi á náttúruvísindi er nú 64% og hefur lækkað um 11 prósentustig. Þá eru nemendur sem búa yfir afburðahæfni á sviðinu hlutfallslega fáir á Íslandi (2%), miðað við meðaltal OECD-ríkja (7%) og annarra Norðurlanda (9%). Stúlkur stóðu sig betur en drengir í læsi á náttúruvísindi á Íslandi, líkt og í öðrum Norðurlöndum, að Danmörku undanskilinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert