Svanhildur sjálfboðaliði ársins

Tómas Torfason, formaður Almannaheilla, afhenti Svanhildi viðurkenningu í tilefni dagsins.
Tómas Torfason, formaður Almannaheilla, afhenti Svanhildi viðurkenningu í tilefni dagsins. Ljósmynd/Almannaheill

Almannaheill, samtök þriðja geirans, hafa valið Svanhildi Ólafsdóttur sem sjálfboðaliða ársins 2023 á degi sjálfboðaliðans sem er í dag, 5. desember.

Kemur þetta fram í fréttatilkynningu samtakanna og enn fremur að Svanhildur hafi sem formaður Krabbameinsfélags Árnessýslu eflt starfsemi félagsins mjög en hún standi nú með fádæma blóma og styðji við fólk með krabbamein og aðstandendur þess.

Býr yfir reynslu og þekkingu

„Svanhildur er einnig ein af máttarstólpunum á bak við fjölskylduviðburðinn „Styrkleika Krabbameinsfélagsins“, sem haldnir hafa verið á Selfossi sl. tvö ár,“ segir enn fremur í tilkynningunni

Búi Svanhildur yfir mikilli reynslu og þekkingu sem hún deili fúslega með öðrum og sé hún meðvituð um að árangur í félagsstarfi byggist á samvinnu og trausti.

„Valið á sjálfboðaliða ársins er liður í að þakka þeim fjölmörgu sem leggja til tíma og orku í starfsemi félagasamtaka á ári hverju. Svanhildur er góð fyrirmynd og öflugur fulltrúi úr þeirra hópi,“ segir að lokum í tilkynningu Almannaheilla.

Berjast fyrir heildarlöggjöf

Almannaheill, samtök þriðja geirans, voru stofnuð sumarið 2008 til að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum fyrir almannaheillasamtök og sjálfseignastofnanir sem starfa í almannaþágu, vinna að sem hagfelldustu starfsumhverfi fyrir þessa aðila, styrkja ímynd þeirra, efla stöðu þeirra í samfélaginu og koma fram fyrir hönd þriðja geirans gagnvart opinberum aðilum og fjölmiðlum.

Þá vinna samtökin að því að heildarlöggjöf verði sett um starfsemi frjálsra félagasamtaka, að skattaleg staða þeirra verði bætt og að sýnileiki þriðja geirans í þjóðfélaginu verði aukinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert