„Verðum bara að viðurkenna okkar ábyrgð“

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir skýrslu stýrihóps um fangelsismál áskorun sem þurfi að taka alvarlega. Í henni kemur m.a. fram að vísbendingar séu um að aðgengi fanga að heilbrigðisþjónustu sé ábótavant.

„Við skorumst ekki undan því að taka saman með dómsmálaráðuneytinu og fangelsismálayfirvöldum að taka til okkar það sem snýr að heilbrigðismálum,“ segir Willum Þór.

Hann segir að skýrslan hafi ekki komið á óvart í ljósi þess að brotakenndar sögur hafi borist um að víða væri pottur brotinn. Nú hins vegar sé skýrsla til staðar til að kjarna málið inn.

Staðfest hvar brotalömin er

„Við verðum bara að viðurkenna okkar ábyrgð í því að margt sem þarna kemur fram er búið að ræða. Hér er þetta bara staðfest hvar brotalömin er. Auðvitað hefur ýmislegt jákvætt gerst eins og með geðheilsuteymi fanga og við þurfum að halda slíkri vinnu áfram,“ segir Willum.

Hann segir að jafnframt þurfi að huga að því að formfesta móttöku Landspítalans á föngum sem þurfa á aðstoða að halda.

„Það hefur tekist mjög í samkomulagi spítala og fangelsismálayfirvalda en við þurfum að formfesta þetta betur,“ segir Willum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert