Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri Menntamálastofnunar, segir að allir þeir sem koma að menntamálum verði að gera betur en niðurstöður sem birtar voru úr PISA-könnuninni 2022 sýna að árangur íslenskra 15 ára nemenda hefur versnað til muna.
„Það sem kemur mér mest á óvart er hversu mikið fall þetta er frá síðustu könnun,“ segir Þórdís Jóna við mbl.is.
Hún segir áhugavert að sjá árangur íslensku nemendanna í samhengi við stöðuna á hinum Norðurlöndunum en þau séu öll á niðurleið og Finnarnir sérstaklega mikið.
Finnast þér þessar niðurstöður áfellisdómur yfir menntakerfinu?
„Við verðum að gera betur en það er ekki hægt að benda í einhverja eina átt. Ég ímynda mér að það að vera kennari að sinna bráðvel gefnum börnum, börnum sem tala ekki íslensku og öllum sem þar eru á milli þá verðum við að standa okkur betur í að koma með námsefni við hæfi svo hægt sé að aðlaga námsefnið að þeim sem eru að nýta það. Hafa námsefnið fjölbreyttara, stafrænt og gagnvirt, þannig að kennarinn geti fundið betur út úr því hver staðan er hjá hverjum og einum nemanda,“ segir Þórdís.
Þórdísi Jónu finnst niðurstöðurnar varðandi lesskilninginn mjög sláandi en 40% fimmtán ára nemenda á Íslandi búa ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi.
„Við verðum að bregðast við þessu og ég held að þarna séum við að sjá áhrifin frá enskunni. Munurinn á milli lesskilnings og læsis á stærðfræði sýna að þegar þú ert farinn að lesa lengri texta þá er einhvern veginn eins og það sé erfiðara,“ segir Þórdís.
Hún segir að mjög mikilvægt sé að bregðast við þessari niðursveiflu og fyrsta skrefið sé að Alþingi samþykki nýja stofnum sem er miðstöð menntunar- og skólaþjónustu.
„Við höfum kallað eftir þessu og frumvarp er komið í gegnum aðra umræðu á þinginu. Svo þarf líka að samþykkja skólaþjónustulögin eftir áramótin þar sem veittur verður meiri stuðningur inn í skólana. Það er mjög mikilvægt.“
Landsbyggðin hefur dregist enn frekar aftur úr í samanburði við höfuðborgarsvæðið og segir Þórdís nauðsynlegt að bregðast við því.
„Sum sveitarfélög eru það lítil að eðlilega hafa þau ekki allar þær bjargir sem til þarf. Ríkið þarf að koma þarna inní að meiri krafti. Þá sjáum við líka í niðurstöðunum að efnahagsstaða barna hefur meiri áhrif. Það er ekki endilega að þeim sé að fjölga sem eru í þessari stöðu heldur eru meiri líkur á að þeim gangi ver. Við þessum þurfum við líka að bregðast.“
Dregur þú eitthvað jákvætt út úr þessum niðurstöðum?
„Það sem skólakerfið okkar státar af er að börnunum okkar líður vel í skólanum. Þau sýna seiglu, skörungsskap, sem er frumkvæði og forystuhæfni, og að vinna undir streitu. Ef við erum að undirbúa okkur undir framtíðina þá vitum við öll að þetta eru eiginleikar sem við viljum öll hafa. Við erum að gera margt gott og það er auðveldara að breyta sem við erum að sjá í niðurstöðunum heldur en hinum þáttunum. Það eru miklar áskoranir framundan en með góðu fólki er allt hægt.“