Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, segir að niðurstaðan í PISA-könnuninni 2022 sé vonbrigði en komi sér ekki beint á óvart þar sem leiðin hafi legið niður á við undanfarin ár.
Niðurstaða í PISA-könnuninni var birt í dag og þar kemur fram að íslensk ungmenni taka verulega dýfu frá síðustu könnum sem var birt árið 2018.
„Þessi niðurstaða er vonbrigði en kemur ekki beint á óvart. Við höfum séð þessa þróun undanfarin ár að Ísland hefur verið á eftir öðrum löndum í þessum greinum sem þarna eru mældar. Það heldur áfram en við sjáum að það hefur orðið breyting á öllum Norðurlöndum til samræmis. Þannig að við erum bara að fylgja þeirri þróun,“ segir Ásmundur Einar.
Í PISA-könnuninni er könnuð hæfni og geta 15 ára nemenda í lesskilningi, læsi á náttúruvísindi og læsi á stærðfræði.
„Við höfum verið í samstarfi við fjölda aðila að vinna gagngerar breytingar á umgjörð menntakerfisins. Í gær greiddum við á Alþingi atkvæði um nýja Menntamálastofnun þar sem við erum að endurreisa hana frá grunni á breyttri hugmyndarfræði. Við erum að vinna að skólaþjónustulöggjöf sem á að auka stoðina og stuðninginn við kennara og skólana auk nýs matskerfis sem er í vinnslu. Allar þessar breytingar eru meðal annars tilkomnar vegna niðurstöðu síðustu kannana,“ segir Ásmundur.
Spurður hvort ekki hafi verið brugðist nægilega vel við fyrri niðurstöðum segir hann:
„Jú en þetta er einfaldlega þannig að kerfisbreytingar í menntamálum taka tíma og það sem við höfum lagt áherslu á er að við erum að vinna eftir menntastefnu til 2030, aðgerðaráætlun sem er ansi rótæk. Ef þú ætlar að gera raunverulegar breytingar á menntakerfinu þá þarftu að hafa alla með og við höfum lagt áherslu á það,“ segir Ásmundur.
Hann segir að rýnt verði í þá vegferð sem menntakerfið er á en um leið að verði því velt upp hvort ekki sé brugðist við með þeim hætti sem þarf að gera.
„Þetta er samtal sem við ætlum okkur að eiga næstu mánuði vegna þess að viljum sjá breytingar. Þær breytingar sem við vinnum núna í menntakerfinu munu ekki skila árangri í PISA-könnun fyrr en eftir fjögur til átta ár. Þetta eru langtímabreytingar,“ segir Ásmundur.
40% fimmtán ára nemenda á Íslandi búa ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi og hlutfall þeirra nemenda sem ná grunnhæfni hefur lækkað um 14% frá síðustu könnun. Spurður hvort þetta séu ekki sláandi tölur segir Ásmundur:
„Jú þær eru það og við erum aftar þar öðrum þjóðum. Ég held að muni skipta miklu máli þær aðgerðir sem er verið að ráðast í, til dæmis matsferill í lestri og efling íslenskunnar. Við þurfum að stíga inn með fjölþættari hætti og þá sérstaklega hvað varðar námsgögn.“
Sást þú eitthvað jákvætt úr niðurstöðunum í könnuninni?
„Ákveðnir þættir sem voru mældir eins og þrautseigja og seigla eru eiginleikar sem skipta máli inn í lífið og framtíðina og við erum að koma vel út þar. Nemendur sem eru erlendan tungumála- og menningarbakgrunn eru að halda í og það er vel.“
Ásmundur segir að niðurstaða úr könnuninni sé áskorun fyrir sig sem menntamálaráðherra og nú sé mikilvægt að vinna vel úr henni.
„Það var stór ákvörðun sem tekin var á Alþingi endurvekja menntamálastofnun frá grunni. Þær gerast varla stærri kerfisbreytingarnar í menntakerfinu og við þurfum að rýna hvort sú hugsun sem þar er sé ekki rétt. Ég held að svo sé.“