Astrid Lindgren kvartar undan Ömmu Langsokki

Fyrirtæki Astridar Lindgren telur höfundarrétt brotinn með útgáfu Ömmu Langsokks.
Fyrirtæki Astridar Lindgren telur höfundarrétt brotinn með útgáfu Ömmu Langsokks.

Astrid Lindgren company, fyrirtækið sem heldur utan um hugverkarétt á verkum Astridar Lindgren, sendi Forlaginu erindi fyrir skemmstu þar sem óskað var eftir því að bókin Amma Langsokkur yrði tekin úr sölu. 

Að sögn Olle Nyman, lögmanns fyrirtækisins og barnabarns Astridar, er ástæðan sú að útgáfa bókarinnar hefur ekkert með fyrirtækið að gera og að það sé mat fyrirtækisins að þarna sé um brot á höfundaverkarétti að ræða. 

„Við fengum nokkrar ábendingar fá fólki á Íslandi sem benti okkur á að út væri komin bók sem bæri nafnið Amma Langsokkur,“ segir Olle. Bókin er gefin út af íslensku bókaforlagi sem heitir Þórshamar. 

Tjáir sig ekki um Þórshamar 

Hann segir að í huga fyrirtækisins sé það ekki nokkrum vafa bundið að með útgáfunni væri brotið á hugverkarétti bóka Astridar Lindgren er snúa að Línu Langsokki. „Við höfðum samband við stærstu netbókasöluna á Íslandi, Forlagið, og báðum það um að taka bókina úr sölu. Sem var gert,“ segir Olle. Forlagið er útgefandi bóka Astridar Lindgren á Íslandi.  

Hann vill ekki tjá sig um það hvort haft hafi verið samband við Þórshamar, sem er útgefandi bókarinnar, en Þórshamar er undirútgáfa bókaútgáfunnar Óðinsauga sem gaf nýlega út bókina Dimmalimm.

Olli hún nokkru fjaðrafoki. Settu erfingjar Muggs, höfundar Dimmalimmar, sig upp á móti útgáfunni sem hefur að geyma nýjar teikningar í stað teikninga listamannsins. Menningar og viðskiptaráðuneytið taldi ekki ástæðu til að aðhafast í málinu. 

Olle Nyman er lögmaður hjá Astrid Lindgren Company.
Olle Nyman er lögmaður hjá Astrid Lindgren Company. Mynd/Aðsend

Fyrsta skiptið 

Að sögn Olle hefur hann starfað sem lögmaður hjá fyrirtækinu í 10 ár og þetta sé í fyrsta skipti sem gerð hefur verið athugasemd við útgáfu bókar. „Við höfum þurft að gera athugasemdir við ýmsan varning tengdan bókunum en þetta er einsdæmi. Að gefin sé út bók sem er byggð á persónum Astridar Lindgren,“ segir Olle.

Hann segir málið hafa komið honum á óvart. Ekki síður fyrir tilstilli þess að myndirnar í nýju útgáfunni líkjast mjög persónunum sem teiknaðar voru í bókum Línu Langsokks að mati Olle. 

Fyrirtækið fer bæði með höfundarrétt sagnanna og réttinn af teikningunum í bókum Astridar Lindgren og heitir höfundur teikninganna Ingrid Vang Nyman.  

Árétting: Huginn Grétarsson eigandi Þórshamars vill koma því á framfæri að ekki sé um að ræða undirútgáfu Óðinsauga, en hann sé „tengdur“ báðum útgáfum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert