Bregðast við með nýrri stofnun

Hlut­fall nem­enda sem nær grunn­hæfni í lesskilningi (um 60%) hef­ur …
Hlut­fall nem­enda sem nær grunn­hæfni í lesskilningi (um 60%) hef­ur lækkað um 14 pró­sentu­stig hér á landi frá síðustu síðustu PISA-könnun en niðurstöður í nýjustu könnuninni voru kynntar í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Menntamálastofnun hefur ekki náð að sinna stuðningi við skólasamfélagið, eins og þekkist í sambærilegum stofnunum í þeim löndum sem Ísland er gjarnan borið saman við, að sögn forstjóra stofnunarinnar.

Stofnun nýrrar þjónustustofnunar sem á að sinna stuðningi við kennara, skólastjórnendur og sveitarfélögin er til umræðu á Alþingi.

„Fyrir Alþingi liggur til þriðju umræðu að setja á laggirnar nýja stofnun. Þessi stofnun er í línu við það sem kemur í raun og veru fram í menntastefnu fyrir árið 2030, að við þurfum að nálgast þessa hluti á allt annan hátt,“ segir Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri Menntamálastofnunnar, í samtali við mbl.is.

„Það á að setja á laggirnar þjónustustofnun sem veitir ráðgjöf og stuðning og verður sterkt bakland við kennara. Mér finnst það vera eitt dæmi um viðbrögð stjórnvalda við þessari þróun.“

Rúmlega 50% nemenda geta lesið til gagns

Hlut­fall nem­enda sem nær grunn­hæfni í lesskilningi er um 60% og hef­ur lækkað um 14 pró­sentu­stig hér á landi frá síðustu PISA-könnun en niðurstöður í nýjustu könnuninni voru kynntar í gær.

Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla, segir í viðtali við Morgunblaðið í dag að viðbrögð viðeigandi aðila við PISA-könnuninni hafi verið stórfurðuleg. 

„Fólk er bara að tala um kerfisbreytingar og að heimilin verði að gera eitthvað. Við sem skólasamfélag verðum að horfast í augu við hvað við höfum verið að gera. Við verðum að axla ábyrgð á því. Skólakerfið kostar næstum 200 milljarða og hvað fáum við út úr því? Við fáum út úr því að rúmlega 50% drengja geti lesið sér til gagns. Þetta er bara ekki boðlegt,“ segir Jón Pétur.

Sýna ábyrgð með nýrri stofnun

Þórdís Jóna segist geta tekið undir það að nauðsynlegt sé að sýna ábyrgð.

„Ég get tekið undir það að auðvitað þurfum við öll að sýna ábyrgð og við ætlum að mæta þessu með nýrri stofnun sem er líka með skólaþjónustu,“ segir hún.

„[Menntamálastofnun] var meiri stjórsýslustofnun og var með ytra mat og var með ýmiss önnur stjórnsýsluverkefni. Sú stofnun náði ekki að sinna þessu hlutverki. Þetta er stofnun sem er, í öllum löndum sem við viljum bera okkur saman við, sterk miðlæg stofnun með bakland fyrir kennara, skólastjórnendur, sveitarfélögin,“ segir Þórdís Jóna.

Skortir námsefni

Hún segir að þörf sé á meira námsefni fyrir grunnskóla en einnig vanti fleiri mælitæki önnur en PISA-könnunina og tekur sem dæmi matsferil. 

„Hluti af því væri lesskilningspróf fyrir börn á aldrinum 10-16 ára þar sem kennari getur skoðað stöðu og framvindu barns í lesskilningi. Það þarf að bæta inn fleiri tækjum og tólum fyrir kennara,“ segir Þórdís.

„Síðan vantar líka miklu meira námsefni. Til þess að geta verið með meira námsefni sem er líka fjölbreyttara, þá þarf meira fjármagn.“

Aðalnámskrá frá árinu 2011

Unnið er að endurskoðun aðalnámskrár grunnskóla, en sú sem nú er í gildi er frá árinu 2011. Spurð hvort eitthvað verði í nýrri aðalnámskrá um hvernig tekið verði á niðurstöðu PISA-könnunarinnar segir hún að svo verði.

„Það er verið að skerpa á mörgum hlutum og líka verið að skoða hæfniviðmið og námsmarkmið,“ segir Þórdís.

Námskráin fer í samráðsgátt í febrúar og segir Þórdís mikilvægt að fá viðbrögð skólasamfélagsins við henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert