Hótelfeðgin safna fyrir Grindvíkinga

Steinþór Jónsson hótelstjóri og Lilja Karen Steinþórsdóttir, aðstoðarhótelstjóri og dóttir …
Steinþór Jónsson hótelstjóri og Lilja Karen Steinþórsdóttir, aðstoðarhótelstjóri og dóttir hans, hafa veg og vanda af söfnuninni Okkar Grindavík. Ljósmynd/Víkurfréttir/Hilmar Bragi Bárðarson

„Við finnum auðvitað til með okkar fólki hér á Reykjanesi,“ segir Steinþór Jónsson, hótelstjóri á Hótel Keflavík, í samtali við mbl.is en á vegum hótels hans hefur söfnunarsjóðurinn „Okkar Grindavík“ nú verið opnaður með það fyrir augum að styðja við íbúa Grindavíkur eftir hamfarirnar sem þeir hafa mátt þola.

„Sigrún Þorbjörnsdóttir, bókarinn okkar, er ein af þeim sem þurftu að flýja heimili sitt svo við fórum að hugsa hvað við gætum gert og það varð úr að við ákváðum að fara af stað með þessa söfnun til að styðja við fólkið í Grindavík,“ heldur hótelstjórinn áfram.

Vilja að féð renni til íbúanna sjálfra

Kveður hann vonir standa til þess að átak þetta velti einhverju af stað þar sem hann viti til þess að margir hugsi nú til Grindvíkinga án þess að átta sig á því hvað þeir geti gert til að sýna stuðning sinn í verki.

„Þetta er komið af stað núna, við erum búin að vera síðustu vikuna að undirbúa þetta því við vildum hafa það öryggi að komast inn á reikninga frá bæjarfélaginu sjálfu auk þess sem við erum með hlekk sem fólk getur smellt á og fylgst með í framhaldinu,“ útskýrir Steinþór.

Tekur hann fram að þau aðstandendur söfnunarinnar hyggist ekki ráðstafa neinum fjármunum sjálf, „við viljum bara að peningurinn fari til íbúanna sjálfra og munum fá bæjaryfirvöld til að aðstoða okkur við að finna réttan farveg fyrir það“, segir hann.

Hvernig mun sú úthlutun fara fram, hefur það verið rætt?

„Nei, í fyrsta lagi verðum við að sjá hvernig söfnunin gengur. Það er svo margt sem tengist fólki persónulega, til dæmis félagslífið, íþróttastarfið og svo framvegis og við höldum að það sé einhvers staðar þar sem þessir peningar munu lenda, aðrir eru í að leysa bankamálin og bæta húsin og slíkt svo þetta er meira stuðningur við fólkið sjálft, að sýna því hlýhug á þessum erfiðu tímum fyrir jólin,“ svarar Steinþór.

Skora á fyrirtæki

Segir hann aðstandendur Okkar Grindavíkur skora á fyrirtæki um allt land að taka þátt. „Við studdum öll fólkið á Seyðisfirði þegar ósköpin gengu yfir þar og í Vestmannaeyjum á sínum tíma. Við erum lítil þjóð og það er mikilvægt að allir hjálpist að þegar svona kemur upp á. Þetta er svolítið langvarandi ástand hjá Grindvíkingum sem eru frá heimilum sínum og kostnaðurinn á hverjum degi er mikill, bara það að vera í burtu fyrir utan allt tilfinningarótið og allt annað sem fylgir þessu,“ segir Steinþór og lokaorðin: „Nú keyrum við bara á þetta.“

Söfnunarreikningur „Okkar Grindavíkur“ er:

0146-26-000001

Kt. 580169-1559

Á vefsíðunni styrkja.is/okkargrindavik er einnig hægt að leggja beint inn á reikninginn, skila kveðjum og skora á aðra auk þess sem myllumerki söfnunarinnar er #okkargrindavik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert