Íhuga að varðveita sprungur í Grindavík

Það eru margar sprungur í Grindavíkurbæ eftir náttúruhamfarirnar. Hugmyndir eru …
Það eru margar sprungur í Grindavíkurbæ eftir náttúruhamfarirnar. Hugmyndir eru uppi um að varðveita einhverjar þeirra sem minnisvarða um atburðinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á fundi bæjarráðs Grindavíkur í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær var samþykkt að fresta viðgerð á ákveðnum sprungum í bænum. Hugmyndir eru uppi um að varðveita þær og gera þær að minnisvarða um náttúruhamfarirnar í bænum.

Í fundargerð bæjarráðs segir að horfa þurfi á verkefnið til framtíðar. Það er, hvaða sprungur og holur vilji er til að halda í sem áfangastað ferðamanna.

Sögulegur viðburður

„Þetta er sögulegur viðburður sem á sér stað og við þurfum að varðveita eitthvað af honum. Við þurfum að skoða það með fagaðilum hvort við verðum með einhvern minnisvarða um þennan atburð. Það er verið hugsa til erlendra ferðamanna og eins Íslendinga. Það er hægt að líta til Vestmannaeyja og sjá hvað var gert þar,“ segir Helga Dís Jakobsdóttir, varaformaður bæjarráðs Grindavíkur, í samtali við mbl.is.

Helga segir að ábendingar hafi borist til bæjarráðs, meðal annars frá Ferðamálastofu, um að þetta gæti verið sögulegt. Hafa bæjarfulltrúar verið í sambandi við Ferðamálastofu.

„Við erum ekkert að flýta okkur hvað þetta varðar og verður skoðað frekar þegar fer að hægjast um,“ segir Helga Dís.

Vinna í fullum gangi

Helga segir að vinna við að loka þeim sprungum sem hafa tekið vegi í sundur og sprungur með lögnum í sé í fullum gangi en ákveðið hafi verið að fresta viðgerðum á sprungum úr alfaraleið og þeim sem valda ekki neinni hættu.

Í því sambandi nefnir Helga Dís stærstu sprunguna sem liggur frá kirkjunni, yfir á bílastæðið hjá íþróttahúsinu og áfram norðvestur við Salthúsið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert