Gísli Jónsson, viðbúnaðarstjóri Geislavarna ríkisins, segir stofnunina fylgjast með þróun mála í Sellafield-kjarnorkuvinnslustöðinni í Bretlandi. Hann segir það vissulega grafalvarlegt ef óprúttnir aðilar geti ráðist inn í kerfi stöðvarinnar. Leki úr sílói stöðvarinnar sé aftur á móti ekki nýjar fregnir.
„Þetta [lekinn] ætti ekki að hafa nema staðbundin áhrif, en það er náttúrulega alvarlegt ef það leka einhverjar upplýsingar um öryggi Sellafields,“ segir Gísli í samtali við mbl.is.
Dagblaðið Guardian greindi í gær frá leka úr stóru sílói, sem geymir geislavirkan úrgang, og er hann sagður fara síversnandi. Auk lekans komst dagblaðið einnig á snoðir um netárás sem er talin mega rekja til ársins 2015. Tölvuþrjótarnir eru sagðir tengjast Rússlandi og Kína.
Sellafield-stöðin er sú hættulegasta sinnar gerðar í Evrópu og hefur starfsemi hennar verið umdeild síðustu áratugi.
Áhyggjur voru lengi af losun versins á kjarnorkuúrgangi til sjávar og beittu yfirvöld Noregs og Írlands sér fyrir því að stöðva slíka losun.
„Út frá þrýstingi þessara tveggja þjóða þá hættu menn losuninni á teknitíum 99, sem löndin gagnrýndu mikið,“ segir Gísli.
Gísli segir hættuna sem stafar af lekanum vera staðbundna. Hætta sé á að kjarnorkuúrgangur leki í grunnvatnið sem sé vissulega sé áhyggjuefni fyrir Bretlandseyjar.
Hann telji þó ekki að ógn steðji að Íslandi eða Noregi út frá lekanum, enda sé ekki um að ræða hættu á kjarnorkuúrgangi í hafinu eins og áhyggjur voru uppi um á árum áður.
Aðspurður segir hann ógnina sem steðji að Íslandi af Sellafield ekki meiri en af öðrum kjarnorkuverum eða þar sem kjarnorkuúrgangur er geymdur.
Geislavarnir ríkisins fylgist hins vegar ávallt vel með í gegnum mælibúnað og hugbúnað til að spá fyrir um dreifingu ef einhver atvik komi upp.
Gísli segir að í umfjöllun Guardian sé blandað saman mögulegum afleiðingum lekans og afleiðingum þess ef slys yrði í Sellafield. Það séu tvær ólíkar sviðsmyndir.
Hann bendir á líkan norsku geislavarnastofnunarinnar, sem Guardian vísi til í umfjöllun sinni, sem sýni hversu hratt kjarnorkuský frá Sellafield myndi ferðast til Noregs ef eldsvoði kæmi upp í Sellafield.
„Ef það yrði eldur þarna þá jú, yrði einhver losun, en líkurnar á því eru mjög litlar. En það er ekki þessi leki.“