Líkur aukast á öðru kvikuhlaupi

Hratt landris hefur mælst nærri Svartsengisvirkjun.
Hratt landris hefur mælst nærri Svartsengisvirkjun. mbl.is/Hákon Pálsson

Líkur fara vaxandi á öðru kvikuhlaupi, eins og því sem varð þann 10. nóvember og kom af stað náttúruhamförum í Grindavík.

Frá þessu greinir Veðurstofa Íslands í tilkynningu.

Tekið er fram að nýjustu gögn bendi til að innflæði í kvikuganginn sem myndaðist þann dag hafi líklega stöðvast. Líkur á eldgosi yfir honum hafi því minnkað verulega.

Kvikusöfnun heldur aftur á móti áfram undir Svartsengi, eins og sjá má af landrisinu þar.

Í tilkynningu Veðurstofunnar segir að líklegt sé að atburðarásin endurtaki sig, sem varð þegar kvikugangurinn myndaðist undir Grindavík.

„Þegar horft er almennt til umbrotahrina með endurteknum kvikuhlaupum, þá má þó reikna með að næsta kvikuhlaup frá Svartsengi verði minna að umfangi en það sem varð 10 nóvember,“ segir í tilkynningunni.

Upphafsmerki nýs kvikuhlaups

Hætta geti þó myndast á umbrotasvæðinu í tengslum við næsta kvikuhlaup.

„Reikna þarf með að kvikuhlaup geti staðið yfir í nokkrar klukkustundir eða daga með aukinni hættu vegna skjálftavirkni og aflögunar á því tímabili.“

Bent er á að upphafsmerki nýs kvikuhlaups séu skyndileg aukning í skjálftavirkni og skörp breyting í aflögun.

„Þau merki koma til með að sjást á mælitækjum nokkrum klukkustundum áður en kvikuhlaupið er líklegt til að skapa hættu í Svartsengi eða Grindavík. Ef til kvikuhlaups kemur gerir Veðurstofan almannavörnum strax viðvart sem virkja um leið sínar viðbragðsáætlanir,“ fullyrðir Veðurstofan.

Komi til kvikuhlaups þá aukist hættan á eldgosi að nýju.

Líklegast að hún hlaupi aftur í austur

Talið er líklegast að kvika hlaupi aftur frá Svartsengi og yfir í kvikuganginn sem myndaðist í gegnum Sundhnúkagíga 10. nóvember og því þykir það líklegasti upptakastaður eldgoss.

„Ekki er hægt að fullyrða neitt um hvenær næsta kvikuhlaup verður. Óvissan um tímasetningu er mjög mikil og kvikuhlaup gæti orðið á næstu dögum eða mögulega eftir marga mánuði.

Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið og fylgist grannt með merkjum um mögulegt kvikuhlaup sem og öðrum breytingum sem gætu valdið frekari hættu á umbrotasvæðinu við Svartsengi og í og við Grindavík.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert