Þórdís Jóna Sigurðardóttir forstjóri Menntamálastofnunar sagði í samtali við mbl.is í gær að til að bregðast við versnandi niðurstöðum Pisa-kannana þyrfti fyrsta skrefið að vera að Alþingi samþykkti nýja stofnun sem yrði miðstöð menntunar- og skólaþjónustu.
Stofnunin á að taka við af Menntamálastofnun, sem ráðherra hyggst leggja niður.
„Já, ný Menntamálastofnun á að vaxa úr grasi,“ segir Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla, um þetta svar Þórdísar.
„Og hvað, á þá bara að kenna gömlu Menntamálastofnuninni um þetta allt saman? Þetta er hreint rugl og bara ryk sem er verið að slá í augu almennings. Þetta er ekkert flóknara en þetta: Við þurfum að stíga skref til baka. Við þurfum að horfa á hvar gengur vel.“
En þá vandast málið.
„Núna fá skólarnir ekki sínar eigin niðurstöður, heldur eru það einhverjir embættismenn hjá Menntamálastofnun sem taka fyrir það að skólarnir geti fengið þær og rýnt í þær. Þeir bera það fyrir sig að PISA-prófið sé til að mæla kerfi en ekki skóla,“ segir hann.
„En við Íslendingar búum svo vel að allir nemendur okkar taka prófið. Þannig að við erum í einstakri stöðu til að geta nýtt okkur prófið, sérstaklega stærri skólarnir.“
Skólarnir fengu að sjá niðurstöður sínar árin 2012 og 2015. Í Réttarholtsskóla komu þær að góðum notum við mótun kennslunnar.
„Við sáum bara hvar skórinn kreppti og hvar ekki. Það sýndi sig að það bætti árangur. Svo biðum við spennt eftir því að sjá okkar niðurstöður árið 2018, en þá var okkur hafnað. Ég hafði samband við OECD og þau sögðu að við værum auðvitað í frábærri stöðu til að nýta niðurstöðurnar.“
Jón Pétur nefnir til samanburðar að í Þýskalandi séu aðeins 4.500 nemendur dregnir út til að taka þátt í könnuninni.
„Þjóðverjar geta ekki nýtt sér þetta eins og við. Minni ríkin eins og Lúxemborg og Liechtenstein – þau geta nýtt sér þetta, en við kjósum að gera það ekki. Og það er bara pólitísk ákvörðun. Það hefur enginn svarað fyrir það öðruvísi en með því að segja að þetta sé bara próf til að mæla kerfi.“