PISA-könnunin er ekki til þess fallin að veita áreiðanlegar upplýsingar um frammistöðu fámennra nemendahópa eins og þeirra sem tilheyra einstökum skólum.
Þetta segir í svari Menntamálastofnunar við fyrirspurn mbl.is, þar sem spurt var af hverju einstakir skólar fengju ekki að vita niðurstöður sinna nemendahópa.
Skólarnir fengu að sjá niðurstöður sínar árin 2012 og 2015.
Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla, segir að þar hafi þær komið að góðum notum við mótun kennslunnar.
„Við sáum bara hvar skórinn kreppti og hvar ekki. Það sýndi sig að það bætti árangur. Svo biðum við spennt eftir því að sjá okkar niðurstöður árið 2018, en þá var okkur hafnað. Ég hafði samband við OECD og þau sögðu að við værum auðvitað í frábærri stöðu til að nýta niðurstöðurnar.“
Í svari stofnunarinnar er tekið fram að megintilgangur PISA sé að gefa heildarmynd af þekkingu og færni nemenda í þátttökulöndum við lok skólaskyldu þeirra.
„Skipulag og tölfræðilegur grunnur könnunarinnar miðar fyrst og fremst að því að veita slíka heildarmynd, sem kemur beint niður á nákvæmni og áreiðanleika í mati á einstökum nemendum,“ segir í svarinu.
„Í stuttu máli er ástæðan sú að PISA dreifir stóru mengi verkefna á heildarúrtak nemenda í hverju landi til að ná sem best utan um sem flesta ólíka fleti á hæfni þeirra (aðferð sem kallast multiple-matrix sampling).
Þannig getur verið misjafnt hvaða prófverkefni, og af hvaða sviðum, einstakir nemendur taka í PISA, jafnvel innan sama skóla. Niðurstöður fyrir einstaka skóla geta þannig gefið ónákvæma mynd af því hvernig hæfni og geta nemenda þeirra þróast yfir tíma. Með þessari aðferð fæst hins vegar nákvæmari mynd af hæfni nemenda þátttökulanda í heild.“
Fyrirspurnin var lögð fyrir stofnunina í kjölfar gagnrýni Jóns Péturs, sem segir í samtali við Morgunblaðið í dag að íslenskir skólar séu í einstakri stöðu til að leyfa niðurstöðunum að gagnast við kennslu.
Nefnir hann til samanburðar að í Þýskalandi séu aðeins 4.500 nemendur dregnir út til að taka þátt í könnuninni.
„Þjóðverjar geta ekki nýtt sér þetta eins og við. Minni ríkin eins og Lúxemborg og Liechtenstein – þau geta nýtt sér þetta, en við kjósum að gera það ekki. Og það er bara pólitísk ákvörðun. Það hefur enginn svarað fyrir það öðruvísi en með því að segja að þetta sé bara próf til að mæla kerfi.“