Héraðsdómur Reykjaness hefur sýknað sveitarfélagið Húnaþing vestra af kröfu einstaklings sem fór fram á miskabætur og viðurkenningu á skaðabótaskyldu vegna ráðningar annars manns í starf sviðsstjóra fjölskyldusviðs sveitarfélagsins. Dómurinn féllst þó á að fulltrúar í byggðaráði og sveitarstjórn hefðu verið vanhæfir til meðferðar og ákvarðanatöku í málinu.
Í febrúar 2022 auglýsti sveitarfélagið eftir metnaðarfullum einstaklingi í starf sviðsstjóra fjölskyldusviðs hjá sveitarfélaginu. Stefnandi sótti um starfið og sagði í umsókn hans að hann hefði m.a. tveggja áratuga þekkingu og reynslu af fræðslumálum gegnum störf sín í grunnskóla sveitarfélagsins. Einni hefði hann þriggja áratuga reynslu af íþrótta- og æskulýðsmálum innan sama sveitarfélags. Að auki áratuga reynslu af ábyrgð á daglegum rekstri, umsjón og eftirliti með fjárstreymi, áætlanagerð fjárhags- og verkáætlana og mannauðsmálum.
Annar maður, sem var skólastjóri grunnskóla í sveitarfélaginu, var síðan ráðinn í starfið sem stefnandi sætti sig ekki við.
Hann reisti málatilbúnað sinn á því að ákvörðun sveitarfélagsins um ráðningu mannsins í starf sviðsstjóra hefði verið ólögmæt og saknæm og haldin svo verulegum annmörkum að hún væri ógildanleg að stjórnsýslurétti. Með ráðningunni hefði ekki verið farið að þeim lagaskyldum sem stjórnvaldi bæri að virða við ráðningar í opinber störf og málsmeðferð því samfara. Stefnandi hefði uppfyllt skilyrði auglýsingar og hæfniskröfur til þess að hljóta hið auglýsta starf og verið sannanlega hæfastur af umsækjendum til að hljóta starfið. Með hinni ólögmætu ákvörðun og samfara höfnun á að ráða stefnanda í starfið hefði sveitarfélagið valdið stefnanda verulegu fjártjóni og miska og bæri ábyrgð á því tjóni.
Í dómi héraðsdóms, sem féll í gær, segir að ákvörðun um ráðninguna hafi verið tekin á fundi sveitarstjórnar. Sá fundur var haldinn strax í kjölfar fundar byggðarráðs þar sem ákvörðun var tekin um að leggja til við sveitarstjórn að ráða skólastjórann í starfið.
Í dómi héraðsdóms kemur fram, að tveir af sex fulltrúum byggðaráðs hafi verið vanhæfir til meðferðar og atkvæðagreiðslu skólastjórans í starf sviðstjóra hjá sveitarfélaginu. Þá hafi þrír af sjö sveitarstjórnarmönnum verið vanhæfir til meðferðar máls, þar á meðal oddviti sveitarstjórnarinnar. Tekið er fram að oddvitinn og skólastjórinn, sem hlaut starfið, hafi verið systkinabörn. Auk þess hafi maki oddvitans verið aðstoðarskólastjóri í umræddum grunnskóla.
„Var um stjórnvaldsákvarðanir að tefla. Að mati dómsins skiptir ekki sköpum við mat á lögmæti ákvörðunar sveitarstjórnar hvort sýnt sé fram á að sveitarstjórn hafi verið ályktunarbær í skilningi 1. mgr. 17. gr. og 4. málsliðar 46. gr. sveitarstjórnarlaga eða hvort vanhæfi þriggja sveitarstjórnarfulltrúa hafi haft raunveruleg áhrif við úrlausn og ákvarðanatöku sveitarstjórnar, enda liggur fyrir að þrír fulltrúar voru vanhæfir, þar á meðal E oddviti og því um verulegan annmarka að ræða á málsmeðferð og þeirri ákvörðun stefnda að ráða C í starfið. Var ákvörðunin þegar af þeirri ástæðu ólögmæt.“
Þá segir dómstóllinn að það eitt að ákvörðun um ráðninguna hafi verið ólögmæt leiði ekki sjálfkrafa til þess að stefnandi eigi rétt á skaðabótum.
Héraðsdómur tekur jafnframt fram, að ekkert hafi komið fram í málinu sem renni haldbærum stoðum undir að háttsemi byggðarráðs- og/eða sveitarstjórnarmanna sveitarfélagsins hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn stefnanda. Því bæri að sýkna sveitarfélagið af kröfu um miskabætur.