Telja minna magn kviku þurfa núna

Frá gerð varnargarða við Svartsengi í síðustu viku.
Frá gerð varnargarða við Svartsengi í síðustu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reikna má með að minni kviku þurfi nú til að kvikuhlaup verði inn í kvikuganginn sem liggur undir Grindavík. Umbrotin við Svartsengi eiga sér hliðstæðu í Kröfueldum og sást þá að magn kviku sem safnaðist fyrir í öskjunni var mest fyrir fyrsta kvikuhlaupið árið 1975. 

Í tilkynningu á vef Veðurstofu Íslands er fjallað um líkindi milli umbrotanna við Svartsengi og Kröfluelda. 

„Þrátt fyrir að dregið hafi úr skjálftavirkni síðustu vikur má búast við frekari umbrotahrinum á Reykjanesskaganum. Dæmi um slíkar umbrotahrinur má sjá í Kröflueldum sem hófust 1975. Á 10 ára tímabili urðu þar 20 kvikuhlaup og enduðu 9 þeirra með eldgosi. Í Kröflueldum fóru kvikuhlaupin öll inn í sama kvikugang og voru mismikil að umfangi. Sambærilega endurtekningu má einnig sjá í virkninni í kringum Fagradalsfjall,“ segir í tilkynningunni.

Myndin sýnir samspil milli myndun kvikuganga og landhæðar í miðri …
Myndin sýnir samspil milli myndun kvikuganga og landhæðar í miðri Kröfluöskjunni. Neðri myndin sýnir landhæð mælipunkts innan Kröfluöskjunnar, en sú efri hvar umbrotasvæði voru í hverri hrinu. Graf/Páll Einarsson og Bryndís Brandsdóttir

Mesta magnið fyrir fyrsta hlaupið 

Segir þar enn fremur að rúmmál kviku sem nú hefur safnast fyrir undir Svartsengi sé talsvert minna en rúmmálið var rétt fyrir kvikuhlaupið 10. nóvember. Ef horft sé til kvikusöfnunar og kvikuhlaupa í Kröflueldum sést að magn kviku sem safnaðist í Kröfluöskjuna var mest fyrir fyrsta kvikuhlaupið. 

„Minna magn hafði svo safnast fyrir í öskjunni áður en næstu kvikuhlaup fóru af stað. Reikna má með að svipuð þróun verði í tengslum við kvikusöfnun undir Svartsengi og að minna magn kviku þurfi að safnast fyrir til að koma af stað næsta kvikuhlaupi inn í kvikuganginn sem liggur undir Grindavík,“ segir í tilkynningunni. 

Líkur eru á að það mælist hægt vaxandi skjálftavirkni áður en nýtt kvikuhlaup fer af stað, sem eru þá merki um aukinn þrýsting undir Svartsengi.

Kröflueldar komu uppá sprungum hvað eftir annað.
Kröflueldar komu uppá sprungum hvað eftir annað. mbl.is/Emilía Björg Björnsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert