Vilja svipta sr. Friðrik nafnbót heiðursborgara

Tilefnið er ný bók Guðmundar Magnússonar.
Tilefnið er ný bók Guðmundar Magnússonar. Samsett mynd

Bæjarstjórn Akraness vill kanna hvort hægt sé að svipta sr. Friðrik Friðriksson nafnbótinni heiðursborgari Akraneskaupstaðar. 

Sr. Friðrik var gerður að heiðursborgara Akraness árið 1947 í tilefni þess að þá voru 35 ár liðin frá stofnun KFUM á Akranesi, en sr. Friðrik var um stuttan tíma starfandi prestur á Akranesi og jafnframt stofnandi KFUM og KFUK. Skagafréttir greina frá. 

Bæjarstjórn Akraness brugðið að heyra frásögn um sr. Friðrik 

Á lokuðum fundi bæjarstjórnar Akraness, sem haldinn var þriðjudaginn 28. nóvember, var nafnbót sr. Friðriks til umræðu.

Var það í tilefni af nýútkominni bók Guðmundar Magnússonar um ævi sr. Friðriks þar sem fram kemur vitnisburður manns um að sr. Friðrik hefði leitað á hann, auk þess sem fleiri tilvik hafa komið fram í fréttaflutningi af málinu. 

Í fundargerðinni segir að bæjarstjórninni sé brugðið að heyra frásögn um að sr. Friðrik Friðriksson hafi brugðist trausti barna og með framferði sínu svert titil heiðursborgara Akraness. Því vísaði bæjarstjórnin því til bæjarráðs að yfirfara reglur um val heiðursborgara og að kanna hvernig slíkt val yrði endurskoðað. 

Bæjarstjóra Akraness falið að endurskoða reglurnar

Málið var því næst tekið fyrir á fundi bæjarráðs þann 30. nóvember. Í fundargerð sem bókuð var með þeim fundi er bæjarstjóra falin frekari úrvinnsla málsins og honum gert að vinna drög að endurskoðuðum reglum um val og útnefningu heiðursborgara Akraness. 

Þar segir enn fremur að mikilvægt sé að þær reglur „gefi bæjarfulltrúum meðal annars svigrúm til endurskoðunar ákvörðunar skapist einhverjar þær aðstæður sem kollvarpa ímynd þess einstaklings sem í hlut á hverju sinni“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert