Andrés Magnússon
Fyrir Alþingi liggur frumvarp um að færa orkumálastjóra skömmtunarvald á raforku. „Þetta eru ekkert annað en neyðarlög,“ segir Þórður Gunnarsson orkusérfræðingur, um nýframkomið frumvarp Atvinnuveganefndar til breytingar á raforkulögum.
Með þessari breytingu verða raforkulögin frá 2003, sem áttu að tryggja samkeppnismarkað með raforku á Íslandi, tekin úr sambandi. Þetta segir Þórður í viðtali við Dagmál Morgunblaðsins, streymi á netinu, sem opið er öllum áskrifendum.
Þau lög voru sett í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar landsins vegna EES-sáttmálans, en Þórður telur augljóst að þessi breyting standist enga skoðun erlendra eftirlitsaðila. Þess vegna sé hún í orði kveðnu tímabundin til tveggja ára, þó ekkert bendi til þess að ástandið verði skárra þá og breytingin því eflaust framlengd eftir þörfum.
„Við erum rétt nýbúin að halda upp á 15 ára afmæli neyðarlaga hinna fyrri, þá koma þessi neyðarlög núna, þar sem Orkustofnun er fært miðstýrt alræðisvald í ráðstöfun orkum þar sem þeir geta ákveðið hver fær orku og hver ekki,“ segir Þórður.
Hann segir þetta gert undir því yfirskyni að tryggja megi á dögum orkuskorts að almenningur og lífsnauðsynleg starfsemi á borð við spítalla njóti forgangs að raforku.
„En afleiðingin er sú að öll ný atvinnuverkefni, sem krefjast raforku að einhverju marki, þau séu með þessu komin á ís, ef þetta fer í gegn óbreytt svona. — Hér er verið að lögleiða skömmunarstefnu, sem verður háð duttlungum Orkustofnunar.“
Þórður varar við því að einstakir embættismenn fái slíkt skömmtunarvald, ekki síst í ljósi þess að embættisfærsla orkumálastjóra til þessa sé alls ekki yfir gagnrýni hafin.
„Það er svolítið eins og að biðja fulla frænda þinn, sem keyrði út í skurð, að keyra bílinn upp úr aftur.“
Viðtalið allt má sjá með því að smella hér.