Alþjóðaflugið er aftur á flugi

„Í ár hafa um 29 flugfélög flogið um Keflavíkurflugvöll í …
„Í ár hafa um 29 flugfélög flogið um Keflavíkurflugvöll í janúar til og með október.“ mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjöldi komu- og brottfararfarþega á Keflavíkurflugvelli fyrstu tíu mánuði ársins var álíka mikill og metárið 2018. Hins vegar fóru mun færri tengifarþegar um völlinn.

Samsetning farþega á Keflavíkurflugvelli síðustu tíu ár er sýnd á grafi.

Grétar Már Garðarsson, forstöðumaður flugfélaga og leiðaþróunar á Keflavíkurflugvelli, segir flugið að komast í sama horf og fyrir farsóttina.

„Í ár hafa um 29 flugfélög flogið um Keflavíkurflugvöll í janúar til og með október. Það er aðeins þremur færri en fóru um völlinn á sama tímabili árin 2017 og 2018, sem var metár hjá okkur. Það sem skýrir að mestu muninn á farþegafjölda nú í ár og á sama tímabili 2017 og 2018 er færri tengifarþegar. Fjöldi komu- og brottfararfarþega er hins vegar nokkuð svipaður.

Þá er einnig áhugavert, þegar rýnt er í fjölda komufarþega í ár miðað við sama tímabil árin fyrir heimsfaraldur, að dreifing þeirra yfir alla mánuðina er nokkuð svipuð og jöfn sem styður enn við þá þróun að dreifing farþega til landsins er að jafnast yfir árið og þeim að fjölga utan hefðbundinna sumarmánaða. Sú þróun er ekki hætt,“ segir Grétar Már.

Graf/mbl.is

Meira framboð 2018

– Hvers vegna eru svona miklu færri tengifarþegar í janúar til október í ár en 2018? Er það fyrst og fremst vegna þess að WOW air hætti starfsemi í mars 2019? Hvernig birtist það í eftirspurn á flugvellinum að tengifarþegar eru svona miklu færri?

„Það er svipað svar við þessum tveimur spurningum. Viðskiptalíkan Icelandair, Play og WOW air, þegar síðastnefnda félagið var með starfsemi, gengur og gekk annars vegar út á að flytja ferðamenn og Íslendinga til og frá landinu og hins vegar að flytja farþega yfir hafið með stuttri viðkomu á Keflavíkurflugvelli. Spyrja þarf flugfélögin hvernig hlutfallið á milli þessara hópa breytist á milli ára og tímabila. Við höfum ekki áhrif á þennan fjölda beint. Það var töluvert meira framboð á sætum 2018 en 2023 og virðist sem mismunurinn á framboði á milli áranna skýrist af tengifarþegum. Samanlagt sætaframboð þessara þriggja félaga var um tveimur milljónum meira í janúar til október 2018, þ.e. hjá Icelandair og WOW air, en árið 2023, þ.e. hjá Icelandair og Play.”

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag, 7. desember. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert