Börnin enn ófundin: Refsiramminn „16 ára fangelsi“

Leifur Runólfsson er lögmaður barnsföður Eddu Bjarkar Arnardóttur.
Leifur Runólfsson er lögmaður barnsföður Eddu Bjarkar Arnardóttur.

Leifur Runólfsson, lögmaður barnsföður Eddu Bjarkar Arnardóttur, segir að yfirvöldum hafi ekki tekist að staðsetja þrjá syni umbjóðanda hans sem leitað hefur verið að í tengslum við innsetningargerð sem miðar að því að færa drengina í umsjá föður þeirra.

Leifur segir að fólk sem hýsi drengina verði að gera sér grein fyrir því að allt að sextán ára fangelsi til lífstíðardómur sé fyrir að halda börnum frá forsjáraðila samkvæmt 193. grein almennra hegningarlaga.

Að sögn Leifs er faðir drengjanna enn staddur hér á landi. Hann er ekki búinn að fá börnin afhent. „Hann bíður eftir því að þeir finnist,“ segir Leifur.

Þungur refsirammi 

Aðspurður segir hann lögreglu, sýslumann og barnavernd leita drengjanna. Hann veit ekki til þess hvort meira sé lagt í leitina nú en áður. Edda var með drengina í felum um allnokkurt skeið áður en fyrri innsetningargerð fór fram. Var henni frestað eftir 2-3 klukkustunda þref að heimili Eddu í Grafarvogi. 

Eins og fram hefur komið á Edda yfir höfði sér ákæru í Noregi fyrir barnsrán. Var hún flutt þangað um liðna helgi í forsjá norskra yfirvalda. Þar bíða hennar réttarhöld. Refsiramminn í Noregi er allt að sex ára fangelsi. Refsiramminn er að sögn Leifs mun þyngri hér á landi.

„Ef fólk er að fela þessi börn og veit hvar þessi börn eru þá er betra að fólk geri sér grein fyrir því að refsiramminn er 16 ára fangelsi til ævilangs fangelsis,“ segir Leifur.

Í 193. grein segir:

„Hver, sem sviptir foreldra eða aðra rétta aðilja valdi eða umsjá yfir barni, sem ósjálfráða er fyrir æsku sakir, eða stuðlar að því, að það komi sér undan slíku valdi eða umsjá, skal sæta sektum … 1) eða fangelsi allt að 16 árum eða ævilangt.“

Faðir drengjanna áhyggjufullur 

„Þó maður vilji ekki sjá neinn í fangelsi og það sé ekkert markmið þá er það að sjálfsögðu ólöglegt að fela þessa drengi og hylma yfir með það hvar þeir eru staddir,“ segir Leifur.

Að sögn Leifs hefur faðir drengjanna miklar áhyggjur. „Hann hefur að sjálfsögðu gríðarlegar áhyggjur af drengjunum. Hann veit ekkert við hvaða aðstæður þeir eru. Þeir eru ekki að sækja skóla og annað. Honum finnst þetta skelfilegt mál eins og öllum," segir Leifur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert