Efast um hæfi Orkustofnunar vegna ummæla Höllu

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtak iðnaðarins. Samtök Iðnaðarins leggjast eindregið gegn …
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtak iðnaðarins. Samtök Iðnaðarins leggjast eindregið gegn samþykkt frumvarps sem tekur á forgangsraforku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samtök iðnaðarins (SI) leggjast eindregið gegn því að samþykkt verði frumvarp atvinnuveganefndar Alþingis, sem flutt er að beiðni umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um breytingu á raforkulögum – frumvarpi sem tekur á forgangsraforku. 

Segja samtökin að ef lögin verði samþykkt sé stigið skref nokkra áratugi aftur í tímann og að samkeppnismarkaður með arforku verði afnuminn.

SI hafa skilað inn umsögn um frumvarpið þar sem lagt er til að það verði afturkallað. Í umsögn samtakanna er einnig velt upp mögulegu vanhæfi Orkustofnunar til að sinna umræddu hlutverki á grundvelli ummæla orkumálastjóra á opinberum vettvangi.

Stjórnvöld greiði götu tafarlausrar uppbyggingar

Samtök iðnaðarins leggja til að stjórnvöld og Alþingi leiti allra leiða til að bregðast hratt við rót vandans, þeim raforkuskorti sem blasir við og greiði götu tafarlausrar uppbyggingar Í raforkukerfinu. Segja samtökin í umsögn sinni að tryggt aðgengi að raforku sé þjóðaröryggismál og forsenda atvinnuuppbyggingar um allt land, verðmætasköpunar og útflutnings til framtíðar, orkuskipta og árangurs Í loftslagsmálum.

SI segja meðal annars að samkeppnismarkaður með raforku verði afnuminn verði frumvarpið að lögum og miðstýring innleidd. Þannig verði farið 20 ár aftur í tímann þegar opnað var á samkeppnismarkað með raforku á Íslandi. Þá benda samtökin á að það skjóti skökku við að í greinargerð frumvarpsins sé hvergi minnst á að raforkuframleiðsla hafi ekki haldið í við þróun samfélagsins síðastliðin 15 ár og ekki gerð grein fyrir alvarlegri stöðu í raforkumálum landsins.

Segja samtökin enga tilraun gerða til að meta þau víðtæku áhrif sem lagabreytingin myndi hafa á atvinnulíf, almenning, verðmætasköpun, útflutning, ríkissjóð, samkeppnishæfni Íslands og stöðu Landsvirkjunar sem markaðsráðandi fyrirtækis á samkeppnismarkaði með raforku. Þau furða sig á að ekki sé tekið tillit til þess að nú þegar eru í gildi ákvæði sem heimila skerðingu á raforku til notenda. Segja þau brýnt að tæma allar mögulegar leiðir til að bregðast við stöðunni áður en íþyngjandi lagaákvæði sem þessi séu sett.

Opinberað gildishlaðnar skoðanir um starfsemi stórnotenda

Að mati Samtaka iðnaðarins brestur Orkustofnun hæfi til að fara með þau verkefni sem stofnuninni eru falin í frumvarpinu.

Vísa samtökin í nokkur ummæli Höllu Hrundar Logadóttur orkumálastjóra í fjölmiðum. Segja þau að orkumálastjóri hafi með ummælum sínum opinberað gildishlaðnar skoðanir sínar hvað varðar starfsemi fyrirtækja á samkeppnismarkaði með raforku og notendur, þá sérstaklega stórnotendur raforku og um leið hver vilji orkumálastjóra, og þar að leiðandi Orkustofnunar, er varðandi með hvaða hætti og hvernig viðskipti á frjálsum markaði með raforku skuli háttað.

Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri.
Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Má draga þá ályktun að slík opinber afstaða Orkustofnunar sem leyfisveitanda og eftirlitsaðila kunni að gefa til kynna huglæg skilyrði stofnunarinnar um forsendur leyfa til að stunda raforkuviðskipti. Ákvæði þess frumvarps sem hér er til umfjöllunar eru sérstaklega vandmeðfarin og orkumálastjóri hefur með þessum ummælum gefið til kynna þá skoðun að hann telji að raforka ætti frekar að rata í önnur verkefni en til þeirra stórnotenda sem hafa byggt upp starfsemi hér á landi,“ eins og það er orðað í umsögninni.

Hætta á að ákvæðið verði ítrekað framlengt

Þá gagnrýna Samtök iðnaðarins að ekki sé fjallað um áhrif á þjóðréttarlegar skuldbindingar í frumvarpinu, svo sem vegna EES samningsins, og að sama skapi liggi ekki fyrir upplýsingar um hvort og hvenær boðaðar breytingar verða tilkynntar ESA, Eftirlitsstofnun EFTA. Segja þau að túlkun á alþjónustukvöðum í frumvarpinu sé ekki í samræmi við inntak og markmið þeirrar þjónustu og að á Íslandi sé hvorki búið að koma á virkum heildsölumarkaði með raforku né heimild til handa stórnotendum til að endurselja umframraforku, sé hún til staðar, inn á markað.

Samtökin segja að markaðslausnir hafi ekki verið nýttar til að stýra raforkunotkun sem ætti að vera eðlilegt fyrsta skref til að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin. Enn fremur segja þau að ekkert bendi til þess að staða raforkumála verði orðin betri eftir 1-2 ár heldur bendi allt til þess, miðað við núverandi forsendur, að raforkuskortur verði enn meiri á þeim tíma og vísa til sólarlagsákvæðis frumvarpsins í því sambandi.

Samtök iðnaðarins telja að samþykkt frumvarpsins myndi setja slæmt fordæmi og hætta verði á að umrætt lagaákvæði verði ítrekað framlengt.

Boðaðar leiðir fresti óumflýjanlegum aðgerðum

Tekið er sérstaklega fram í umsögn SI að samtökin taki að fullu undir mikilvægi þess að útfæra viðmið um fullnægjandi raforkuöryggi og framboð á raforku og að skýra þurfi hlutverk og ábyrgð aðila á raforkumarkaði við að tryggja raforkuöryggi.

Samtökin taka einnig undir að skilgreina þurfi alþjónustu með fullnægjandi hætti í raforkulögum og hverjir skuli njóta hennar, meðal annars í samræmi við regluverk EES samningsins hvað það varðar. Þá taka þau heilshugar undir það sem segir í athugasemdum við frumvarpið að staða raforkumála sé erfið og orkuöryggi hér á landi sé mikilvægt úrlausnarefni.

Hins vegar telja samtökin að þær leiðir sem boðaðar eru í fyrirliggjandi frumvarpi séu síst til þess fallnar að leysa þá alvarlegu stöðu sem uppi er. Þvert á móti munu þær fresta óumflýjanlegum aðgerðum sem taka á hinum raunverulega vanda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka