Í ljósi þeirra jarðhræringa sem orðið hafa á Reykjanesskaga undanfarin ár velta margir fyrir sér hvort einhver íbúðahverfi á höfuðborgarsvæðinu séu í hættu.
Spurning þess efnis barst Vísindavefnum á dögunum og Jón Gunnar Þorsteinsson, ritstjóri Vísindavefsins, svaraði henni skýrt og skilmerkilega, og las Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við HÍ, hana yfir.
„Stutta svarið við spurningunni er að engin íbúðahverfi á höfuðborgarsvæðinu liggja á flekaskilum. Þéttbýl svæði á Suðurlandi, eins og Hveragerði og Selfoss, liggja hins vegar á þverbrotabelti Suðurlands, en beltið er birtingarmynd flekaskilanna þar,“ skrifar Jón Gunnar en spurningin var svona: Hvaða íbúðahverfi á höfuðborgarsvæðinu liggja á flekaskilum?
Suðurlandsþverbrotabeltið er um 70 km langt og um 10-15 km breitt. Það nær frá Hellisheiði í vestri og austur að Heklu. Vesturendi beltisins tengist síðan flekaskilum Reykjanesskaga. Jarðskjálftar á þverbrotabeltum á Íslandi geta orðið stærri en annars staðar á flekaskilum hér á landi.
Jón Gunnar veltir því upp hvort spyrjandi hafi kannski frekar verið að velta fyrir sér hvort svonefndir sprungusveimar ná inn á höfuðborgarsvæðið og er svarið við þeirri spurningu já.
„Sprungusveimur Krýsuvíkur nær inn í austustu úthverfi Reykjavíkur, Kópavogs og Garðabæjar. Sprungusveimar eru eins konar merki á yfirborði jarðar um hvar stórir kvikugangar hafa nálgast yfirborðið,“ skrifar Jón Gunnar.
Vísar Jón Gunnar þar inn á svar Páls Einarssonar frá 17. nóvember inni á Vísindavefnum þar sem hann útskýrir kvikuganga í þaula og fer yfir það hversu langt kvikugangar geta brotið sér leið.