„Sú staðreynd að afborganir margra fjölskyldna af húsnæðislánum hafa hækkað um allt að 250 þúsund krónur á mánuði, kallast í skrúðmælgi ráðherrans „efnahagslega krefjandi aðstæður.“,“ skrifar Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, á Facebook- síðu sína.
Vísar Sigmar þar í ummæli Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, og kveður hann ósáttan við gagnrýni Sigmars og Viðreisnar á íslensku krónuna og þann óverjandi óstöðugleika sem hún valdi að mati flokksins.
„Hann segir sorglegt að fólk „noti gjaldmiðil okkar Íslendinga endurtekið sem blóraböggul fyrir efnahagslega krefjandi aðstæðum sem við stöndum frammi fyrir.“,“ ritar Sigmar enn fremur.
Segir þingmaðurinn það hreinan brandara að smætta alvarlegt ástand í orðin „krefjandi aðstæður“ í landi þar sem fólk geti allra náðarsamlegast keypt sér húsnæði á okurvöxtum sem jafnvel forhertir handrukkarar myndu skammast sín fyrir að innheimta.
„Það er síðan sjálfsagt og eðlilegt að fyrirtæki sem eru með tekjur í erlendri mynt geri upp bókhald sitt í þeim gjaldmiðli. Viðreisn hefur aldrei fett fingur út í það. Viðreisn vill hins vegar að allir landsmenn fái að búa við sama stöðugleika og þessi fyrirtæki og losni undan sveiflóttum gjaldmiðli. Þess vegna viljum við fleygja krónunni og taka upp traustari mynt sem gjaldmiðil allra Íslendinga,“ ritar Sigmar því næst.
Úr því krónan sé saklaus hljóti slök hagstjórn að vera skýringin. „Ég hef ákveðnar efasemdir um að sú málsvörn sé heppilegri fyrir mann sem setið hefur sem fjármálaráðherra meira og minna síðasta áratuginn,“ klykkir Sigmar út.