Myglugró greindust í leikskóla

Leikskólinn Efstihjalli í Kópavogi.
Leikskólinn Efstihjalli í Kópavogi. Ljósmynd/Aðsend

Myglugró greindust í sýni sem tekið var í þakrými leikskólans Efstahjalla í Kópavogi.

Þetta staðfestir Sigríður Björg Tómasdóttir, almannatengill Kópavogsbæjar.

Sýnið var tekið í nóvember og fundust myglugró í snefilmagni. Fulltrúar heilbrigðiseftirlitsins hafa kannað aðstæður og mátu þeir ekki tilefni til að loka skólanum. 

Nokkrum rýmum hefur þó verið lokað í samráði við starfsfólk og kennara, nánar tiltekið hreyfisal, sérkennslurými og salerni starfsfólks. Lokunin er sögð hafa óveruleg áhrif á starfsemi leikskólans.

Búið að taka sýni

Fundað var með foreldrum vegna málsins síðastliðinn mánudag.

Að sögn Sigríðar er búið að taka fleiri sýni um allan leikskólann og má búast við niðurstöðum þeirra innan þriggja vikna. 

Þá verður allsherjar hreingerning í leikskólanum um helgina og er stefnt að því að skipta um einangrun í þakrými. Eiga þær framkvæmdir að hefjast eftir helgi og er áætlað að þeim verði lokið fyrir jól.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert