Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, samskiptastjóri Reykjavíkurborgar, segir að það ekki sé rétt að 17 upplýsingafulltrúar starfi hjá Reykjavíkurborg heldur séu þeir tíu.
Er hún þar að vísa til ræðu Mörtu Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, sem sagði 17 upplýsingafulltrúa starfa hjá borginni í ræðu í borgarstjórn sem sagt var frá á mbl.is.
Eva fer fyrir samskiptateymi borgarinnar sem tilheyrir skrifstofu Ráðhússins. Hún segir tíu upplýsingafulltrúa starfa hjá borginni. Tveir hjá samskiptateymi Ráðhússins og átta hjá sviðum borgarinnar. Þá hafi tveimur upplýsingafulltrúum verið sagt upp á árinu en þeir tilheyrðu skrifstofu samskiptateymisins.
Að auki starfi sex starfsmenn hjá samskiptateymi Ráðhússins sem ekki sé rétt að nefna upplýsingafulltrúa líka að sögn Evu. Þar af eru þrír verkefnastjórar viðburða á borð við Menningarnótt, ljósmyndari, vefstjóri, einn sem sinnir efnisgerð og einn sem sinnir myndbandsgerð til fræðslu.
„Þess má geta að starf upplýsingafulltrúa hefur tekið miklum breytingum og snýr að miklu leyti að almennri upplýsingagjöf til notenda þjónustu Reykjavíkurborgar,“ segir í skriflegu svari frá Evu.