Seinka skóladegi unglinga

Breytingin tekur gildi næsta haust.
Breytingin tekur gildi næsta haust. Ljósmynd/Colourbox

Reykjavíkurborg hefur ákveðið að skóladagur unglinga muni í fyrsta lagi hefjast klukkan 08.50 að morgni. Tekur breytingin gildi haustið 2024 en um er að ræða tilraunaverkefni til þriggja ára.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem send var foreldrum unglinga á unglingastigi í skólum borgarinnar. 

„Í kjölfar tveggja rannsókna varðandi svefnlengd unglinga í grunnskólum Reykjavíkurborgar, sem stýrt var af Dr. Erlu Björnsdóttur, var samþykkt í borgarráði að hefja þriggja ára tilraunaverkefni um að seinka byrjun skóladags hjá unglingum.

Þverfaglegur starfshópur var stofnaður til að leggja fram tillögu að framkvæmd og útfærslu seinkunarinnar. Þar höfðu aðkomu fulltrúar nemenda, skólastjórnenda, Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR), Heimila og skóla auk fulltrúa frá Reykjavíkurborg,“ segir í tilkynningunni.

Mega byrja seinna

Árgangarnir mega byrja seinna að morgninum en stjórnendur og starfsfólk hvers skóla mun útfæra það eins og best hentar skólastarfi í hverjum skóla fyrir sig. Áður hófst skóladagur nemenda kl. 8.20.

Tillaga þessa efnis ásamt greinagerð var send út til umsagnar í nóvember og þar gafst skólaráðum allra grunnskóla, foreldrafélögum, nemenda-/félagsmiðstöðvaráðum, ungmennaráðum, íþróttafélögum, tónlistarskólum, skólahljómsveitum, forstöðufólki félagsmiðstöðva, embætti landlæknis, umboðsmanni barna og Kennarasambandi Íslands kostur á að senda inn umsögn um málið.

Heilt yfir voru þeir aðilar sem sendu inn umsagnir jákvæðir gagnvart breytingunni og því að hafa vellíðan unglinga að leiðarljósi. Þó komu fram áhyggjur af því að skóladagurinn myndi lengjast í hinn endann, mögulegum árekstrum við íþrótta- og tómstundastarf og því að unglingarnir myndu einfaldlega fara seinna að sofa.

Tengsl svefns og andlegrar heilsu

Í tilkynningunni segir að þrátt fyrir aukna vitundarvakningu um mikilvægi svefns þá sofi margir unglingar ekki nóg og að sífellt fjölgi í þeim hópi á milli ára. Það sé áhyggjuefni. 

Á sama tíma og fleiri unglingar sofa of lítið sýna rannsóknir að andleg líðan þeirra fer versnandi en ljóst er að tengsl svefns og andlegrar heilsu eru töluverð.

Ráðlagður svefntími hjá unglingum á aldrinum 14-17 ára eru 8-10 klukkustundir á sólahring. Þrátt fyrir aukna vitundarvakningu um mikilvægi svefns þá sofa margir unglingar of lítið og hópur þeirra sem sofa of stutt fer stækkandi milli ára sem er mikið áhyggjuefni.

Nýleg rannsókn á svefni unglinga á Íslandi sýndi að 55% unglinga í 10. bekk sofa að meðaltali um 7 klukkustundir á nóttu sem er undir ráðlögðum viðmiðum.

Mælingar á svefni unglinga á skóladögum hafa sýnt enn styttri svefn, eða um 6,2 klst á nóttu að meðaltali.

Á sama tíma og fleiri unglingar sofa of stutt sýna rannsóknir að andleg líðan þeirra fer versnandi en ljóst er að tengsl svefns og andlegrar heilsu eru töluverð.

Ónægur svefn hefur verið tengdur við fjölda neikvæðra afleiðinga á líkamlega heilsu og andlega líðan ungmenna og hefur lítill svefn einnig verið tengdur við lakari námsárangur og verri frammistöðu á hugrænum prófum.

Dagur fundar með öllum nemendum

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri mun á morgun, föstudaginn 8. desember, eiga fjarfund með öllum nemendum í 7. til 10. bekk í grunnskólum borgarinnar til að ræða breytinguna. 

„Við erum sannfærð um að margt jákvætt muni leiða af þeirri breytingu að seinka byrjun skóladags hjá unglingum. Ávinningurinn mun ekki eingöngu skila sér til unglinganna sjálfra heldur líka til starfsfólks í skóla- og frístundastarfi, fjölskyldna og samfélagsins alls,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, undir lok tilkynningar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert