Íbúar á Íslandi verða 611 þúsund árið 2074 og gætu orðið 500 þúsund innan 20 ára.
Þetta kemur fram í mannfjöldaspá Hagstofunnar.
Íbúum á Íslandi fjölgar úr 388 þúsund skráðum einstaklingum árið 2023 í 518 til 760 þúsund íbúa á næstu 50 árum, með 90% líkum.
„Samkvæmt háspá eru 5% líkur á að íbúar verði fleiri en 760 þúsund og 95% líkur á þeir verði færri. Lágspá gefur til kynna að 5% líkur séu á að íbúar verði færri en 518 þúsund og 95% líkur á að þeir verði fleiri,” segir í tilkynningu frá Hagstofunni.
Mannfjöldaspáin byggir á líkönum um frjósemi, dánartíðni og búferlaflutninga.
Frjósemishlutfall verður 1,4 barn á hverja konu (13-55 ára) árið 2073, samkvæmt miðgildi spárinnar. Frjósemishlutfallið gæti orðið á bilinu 1,3 til 1,5 (með 90% líkum) árið 2073.
Samkvæmt miðgildi spárinnar aukast lífslíkur kvenna við fæðingu og verða 89 ár árið 2073, samanborið við 84 ár árið 2022, og lífslíkur karla hækka úr 81 ári í 84 ár,
Fjöldi aðfluttra verður meiri en fjöldi brottfluttra allt tímabilið, fyrst og fremst vegna búferlaflutninga erlendra ríkisborgara.
Eftir 2057 verður elsti aldurshópurinn (eldri en 65 ára) fjölmennari en sá yngsti (yngri en 20 ára) samkvæmt miðgildi spárinnar.