Skútumálið: „Því færri, því betra“

Garðskagaviti kemur við sögu í málinu.
Garðskagaviti kemur við sögu í málinu. mbl.is/Hari

Rannsókn lögreglu á skútumálinu svokallaða hófst þegar Daninn Jonaz Rud Vodder kom til Íslands 22. júní, en heimsóknin þótti grunsamleg og leiddi til þess að lögreglan fylgdi honum óslitið eftir fram að handtöku.

Í kjölfarið fékk lögregla upplýsingar um skútu sem hafði ekki tilkynnt um komu inn í landhelgi og var talið að skútan tengdist komu Jonaz til landsins. Þann 23. júní varð vart við skútuna út af Garðskagavita og á sama tíma fylgdi lögregla Jonaz eftir niður í fjöru þar sem hann hitti meðákærða Poul Frederik Ol­sen og afhenti honum búnað og matvöru sem meðákærðu var nauðsynleg til að geta haldið för sinni áfram. Voru Poul og Henry Fleischer handteknir um borð í skútunni þar sem fíkniefnin fundust í leynihólfi.

Hlutu þunga dóma

Þetta er á meðal lýsinga sem koma fram í dómi Héraðsdóms Reykjaness sem féll á mánudag í málinu. Þá var greint frá því að mennirnir, sem eru allir Danir, hefðu verið sakfelldir fyrir stórfellt fíkniefnalagbrot vegna vörslu á rúm um 157 kílóum af hassi og 40,52 g af maríhúana til sölu og dreifingar á Grænlandi.

Poul hlaut sex ára dóm en Henry fímm ár en þáttur þeirra í undirbúningi var mismunandi. Jonaz var síðan sakfelldur fyrir hlutdeildarbrot og hlaut hann 18 mánaða dóm. 

Héraðsdómur Reykjaness mat framburð mannanna ótrúverðuga.
Héraðsdómur Reykjaness mat framburð mannanna ótrúverðuga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vitað að „drulla“ yrði sett um borð

Í dómnum segir að Poul hafi verið margsaga hvernig siglingin kom til, m.a. vísar hann til lýsinga á því hvernig ónefndur vélhjólaklúbbur hafi verið á eftir honum í þrjú ár og hótað líkamsmeiðingum vegna skemmda á mótorhjóli. 

Fram kemur að margar útgáfur séu til af því hvernig siglingin kom til, við hverja Poul var í sambandi og hvernig. Mat dómstólinn framburð hans ótrúverðugan og féllst á það með ákæruvaldinu að gögn málsins bæru með sér að hann hefði í maí og fram í júní sl. verið að skipuleggja flutning fíkniefnanna með skútunni. 

Í dómnum er sagt frá leynihólfi um borð í skútunni. Poul greindi frá því í skýrslutöku hjá lögreglu að hann hafi séð leynihólfið í skútunni eftir að hann hafi komið aftur um borð.

„Fyrst kvaðst hann hafa vitað að sett yrði „drulla“ um borð og nánar spurður hvað hann ætti við með „drulla“ svaraði hann hass, kókaín eða heróín. Ákærði bar fyrir dómi að hann hafi ekki nefnt efnin sjálfur heldur hafi lögreglan spurt hvort um þessi tilteknu efni væri að ræða. Lögreglumaður Ú sem stjórnaði rannsókn málsins bar fyrir dómi að það hafi verið ákærði sjálfur sem hafi tilgreint hass, kókaín eða heróín, en hann hafi verið spurður hvað hann ætti við með orðinu „drulla“. Ákærði hefur borið fyrir dómi að hann hafi verið taugaveiklaður yfir að það gæti e.t.v. verið eitthvað ólögmætt um borð en hann hafi alls ekki vitað að þetta væru fíkniefni,“ segir í dómi héraðsdóms. 

Fram kemur í dómi héraðsdóms að margar útgáfur séu til …
Fram kemur í dómi héraðsdóms að margar útgáfur séu til af því hvernig siglingin kom til. Ljósmynd/Colourbox

Handtekinn um borð í skútunni

Héraðsdómur segir í niðurstöðukafla dómsins að Poul hafi tekið fullan þátt í undirbúningi innflutnings fíkniefnanna með því að sjá um og kaupa búnað vegna flutnings skútunnar Cocotte á land og í landi í mars 2023, auk þess að hafa í maí sama ár keypt efni og búnað til að útbúa leynihólfið, pakkað fíkniefnunum, komið þeim fyrir og siglt með þau með þann ásetning að selja þau. Hann var var handtekinn um borð í skútunni þar sem fíkniefnin fundust og var með vörslur þeirra.

„Er hafið yfir skynsamlegan vafa að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og er hún réttilega heimfærð til refsiákvæða,“ segir í dómnum. 

Með mynd í símanum af sams konar pakkningum

Henry neitaði sök fyrir dómi og byggði á því að hann hefði ekki haft vitneskju um fíkniefnin um borð. Fyrir dómi bar hann að Poul hafi hringt í sig og beðið um að koma með sér í siglingu norður fyrir Ísland. Héraðsdómur mat framburð Henry ótrúverðugan. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að Henry hefði haft beina aðkomu að málinu með greiðslu kaupverðs skútunnar og greiðslu inn á greiðslukort sem notað var við að kaupa búnað og tæki tengd fíkniefnaflutningnum.

Þá var hann með mynd á síma sínum af fíkniefnum í sams konar pakkningum og fundust um borð. Er það mat dómsins að hann hafi vitað eða að minnsta kosti hlotið að gera sér grein fyrir að ferðin væri vegna flutnings á fíkniefnum. Ákærði var handtekinn um borð í skútunni þar sem fíkniefnin fundust og var með vörslur þeirra. 

Ekki liggur fyrir hver fjármagnaði kaupin.
Ekki liggur fyrir hver fjármagnaði kaupin. mbl.is/Golli

Ekki vitað hver fjármagnaði kaupin

Að sögn héraðsdóms hefur ekki verið leitt í ljós hver fjármagnaði kaupin á fíkniefnunum en rannsóknargögn bera með sér að vitnið D tengist málinu, auk fleiri aðila. Játaði hann fyrir dómi að hafa greitt flugmiða ákærðu Henry og Jonaz og hafa tekið bifreiðina sem Poul var á í mars 2023, auk fleiri tenginga gegnum netfang hans og símanúmer.

Er sá hluti málsins enn til rannsóknar lögum samkvæmt sem og hverjir voru aðilar að Signal-samskiptum [sem er forrit sem býður upp á dulkóðuð samskipti] við Jonaz. Það hefur hins vegar ekki áhrif á að þáttur ákærðu í máli þessu telst vera fullrannsakaður.

Tók að sér að fara til Íslands með skömmum fyrirvara

Jonaz neitaði einnig sök í málinu og kvaðst ekki hafa haft neina vitneskju um skútuna Cocotte eða af fíkniefnum um borð. 

Héraðsdómur segir að gögn málsins beri með sér að Jonaz hafi tekið að sér að fara alla leið til Íslands með mjög stuttum fyrirvara, þar sem notuð hafi veirð dulkóðuð samskipti á Signal sem skyldu eyðast eftir átta klukkustundir. Jonaz hefur borið að ferðin hafi verið farin fyrir aðila að nafni S, sem Jonaz hafi haldið fram fyrir dómi að hann hafi fyrst hitt 3–4 vikum áður.

„Af gögnum málsins sést að það er ekki rétt. Ákærði sendi þeim aðila sem hann hefur borið fyrir dómi að heiti S, og hafi heitið Q á Signal, SMS-skilaboð í desember 2022. Er framburður ákærða því metinn ótrúverðugur,“ segir í dómi héraðsdóms. 

Dómstóllinn segir fleiri atriði koma til. Fyrir utan að vera aðeins í Signal-samskiptum liggur fyrir að Jonaz fékk afhent reiðufé og greiðslukort hjá manni sem hann þekkti ekki, til að kaupa fullkomlega lögleg tæki, búnað og matvöru eftir nákvæmum leiðbeiningum sem hann átti að koma til manna sem voru við strendur Íslands. Var honum uppálagt að nota peningana frekar en kortið. Jonaz kvaðst fyrir dómi aldrei hafa velt því fyrir sér eða spurt hvers vegna mennirnir færu ekki einfaldlega sjálfir í land til að kaupa það sem vantaði.

Menninir vonuðu að það yrði ekkert vesen með Landhelgisgæsluna. Það …
Menninir vonuðu að það yrði ekkert vesen með Landhelgisgæsluna. Það fór svo að flugvél Gæslunnar varð vör við tvo menn á óþekktu sjófari um tvær sjómílur norður af Garðskaga með stefnu á Garðskagavita og sá sjósettan gúmmíbát sem var róið af einum manni í átt að landi. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

„Krossum puttana og vonum að það verði ekki vesen með Landhelgisgæsluna“

Í Signal-samskiptum Jonazar dagana 22.–24. júní hafi komið skýrt fram að honum var sagt að reyna að hitta á Henry og Poul á stöðum þar sem þeir væru óséðir, þeir gætu m.a. ekki hist í höfnum því það væri of hættulegt. Jonaz var beðinn um að athuga hvort hann gæti snúið sér þannig að myndavél á staðnum sæi hann ekki og hann var spurður hvort einhver hafi elt hann eða virkað grunsamlegur. Jonaz tók sérstaklega fram að við Garðskagavita væri fólk á staðnum og spurði hvort hann þyrfti ekki að koma þeim sem var að róa í land, þ.e. Poul, í burtu frá fólkinu. Fékk hann svarið: „Því færri, því betra“.

Jonaz fékk einnig senda mynd af báti Landhelgisgæslunnar og staðsetningu en meðal þess síðasta sem kom fram í samskiptunum var: „Og svo krossum við bara allir puttana og vonum að það verði ekki vesen með Landhelgisgæsluna.“

Hafið yfir skynsamlegan vafa

Jonaz gat engar skýringar gefið á þessum samskiptum og kvað engar spurningar hafa vaknað hjá sér.

Héraðsdómur telur það hafið yfir skynsamlegan vafa að Jonaz hafi vitað, eða að minnsta kosti hlotið að gera sér grein fyrir, að með kostnaðarsamri ferð til Íslands með nánast engum fyrirvara, fyrir aðila sem hann taldi að gætu aðstoðað sig vegna glæpamanna, til að útvega lögmætan búnað, tæki og matvöru til meðákærðu á sjófari í skjóli nætur, sem ekki gátu sjálfir komið í land og ekki leitað aðstoðar heimamanna, væri hann að leggja fíkniefnamisferli lið. Hann hafi jafnframt látið sér í léttu rúmi liggja hvaða efni þetta væru og í hvaða magni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert