Vegagerðin hefur auglýst að nýju eftir tilboðum í smíði tveggja brúa á hringvegi á Vestfjörðum.
Þegar verkið var auglýst í fyrra skiptið bárust þrjú tilboð. Þau voru öll langt yfir kostnaðaráætlun. Vegagerðin tók í framhaldinu þá ákvörðun að hafna öllum tilboðunum og auglýsa verkið að nýju. Tilboðum skal skilað í síðasta lagi 19. desember nk.
Vegagerðin bauð út 13. október smíði tveggja steinsteyptra eftirspenntra 34 metra plötubrúa yfir Fjarðarhornsá og Skálmardalsá, ásamt vegagerð við hvora brú fyrir sig, samtals um 1,8 kílómetrar. Brýrnar eru beggja vegna Klettsháls.
Tilboð voru opnuð 7. nóvember. Eykt ehf. Reykjavík átti lægsta tilboðið, krónur 1.129.936.429. Var það 57% yfir áætluðum verktakakostnaði, sem var krónur 718.371.378. Hér munaði því 411,5 milljónum króna. Íslenskir aðalverktakar hf. Reykjavík buðu krónur 1.155.844.682 og Ístak hf. Mosfellsbæ bauð krónur 1.251.744.394.
Sérfræðingar Vegagerðarinnar fóru yfir tilboðin og var ákveðið að hafna þeim öllum. Samkvæmt auglýsingunni skal verkinu að fullu lokið eigi síðar en 1. desember 2025.
Nokkur tímamót hafa orðið undanfarið við framkvæmdir á Vestfjarðavegi. Ný brú yfir Þorskafjörð var opnuð nýlega og sömuliðis nýr vegur um Teigsskóg.