Orkustofnun hefur veitt málmleitarfyrirtækinu Víðarr ehf. leyfi til leitar og rannsókna á málmum á afmörkuðu svæði í Húnabyggð, nánar tiltekið á milli Vatnsdals og Svínadals. Í leyfinu felst hvorki heimild né vilyrði til nýtingar málma á leyfissvæðinu, en hafi leyfishafi áform um slíkt beri honum að sækja um nýtingarleyfi skv. lögum sem þar um gilda.
Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu Orkustofnunar.
Með leyfinu sem gildir til 31. desember 2028 er félaginu veitt heimild til leitar og rannsókna á málmum, með sérstaka áherslu á gull, kopar, sink, blý, silfur og aðra góðmálma sem finnast kunna á svæðinu.
Rannsóknarleyfið er bundið ýmsum skilyrðum. Eftir atvikum beri að sækja um leyfi eða leita eftir samþykki fyrir framkvæmdum hjá þar til bærum stjórnvöldum og bent er á að eftir atvikum kunni framkvæmdir að vera háðar umhverfismati, bent er á að við framkvæmdir kunni að koma til kasta laga um náttúruvernd, skipulagslaga og laga um minjavernd og einnig er þess krafist að leyfishafi gæti þess að framkvæmdir á hans vegum valdi hvorki mönnum, munum né búpeningi hættu eða skaða. Tilkynna skuli landeigendum á leyfissvæðinu um komu í lönd þeirra með a.m.k. sólarhrings fyrirvara. Umhverfissjónarmið skuli og hafa í heiðri.
Umsókn Víðarr um rannsóknarleyfi er dagsett 27. júní sl. en er ítrekun frá umsókn sama efnis frá 29. október 2020. Segir þar að mikil óvissa ríki um eiginleika svæðisins og því verði áhersla lögð á leit á svæðinu fremur en að ráðast í miklar framkvæmdir þar. Áætlanir kunni og að breytast þegar frekari upplýsingar um svæðið liggi fyrir.
Markmiðið sé að stunda rannsóknir til að leggja mat á frumgerðir steinefna áðurnefndra jarðefna í jarðvegi á svæðinu. Finnist þau í nægjanlegu magni og styrk til að réttlæta námuvinnslu, yrði í kjölfar þess sótt um nýtingarleyfi. Telur fyrirtækið að svæði það sem rannsóknaleyfið tekur til sé nægjanlega stórt og afmarkað til að unnt sé að leggja mat á hvort þau jarðefni sem leitað er finnist í vinnanlegu magni.
Í upphafi er áformað að ráðast í frumrannsóknir á svæðinu sem fela í sér greiningu á fyrirliggjandi gögnum og rannsóknum, kortlagningu svæðisins og sýnatöku. Einnig er ætlunin að greina landslag og aðstæður á svæðinu af gervihnattarmyndum. Þá á að gera jarðeðlisfræðilega könnun á svæðinu sem og grunnrannsóknir á umhverfisþáttum.
Einnig verður jarðfræði svæðisins kortlögð og stuðst við gögn úr jarðmælingum ásamt gögnum úr gervihnöttum. Verða jarðmælingar gerðar af jafðfræðingum á vegum félagsins sem einnig munu annast kortlagningu. Farið verður á bíl um svæðið þar sem vegir eru til staðar, en gangandi þegar þeim sleppir.
Eigendur Víðarr eru erlendir og stærsti hluthafinn Disko Bay Capital Pte Ltd. og segir í umsókninni að meirihluti fjárfestinga hans sé bundinn í jarðefnaleit í Ástralíu. Er félagið sagt fjármagna starfsemi Víðarr hér á landi.