Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra kveðst „alveg óskaddaður á líkama og sál“ eftir að rauðu glimmeri var kastað yfir hann á hátíðarfundi sem fór fram í Veröld, húsi Vigdísar, núna í hádeginu.
„Mér finnst réttur fólks til þess að mótmæla vera ákveðin grundvallarmannréttindi, sem ég mun alltaf verja, en mér finnst ekki fara vel á því að fólk yfirtaki viðburði, sem að til dæmis í þessu tilviki átti að fjalla um mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og 75 ára afmæli þeirrar yfirlýsingar. Almennt finnst mér bara gott að fólk tali saman og öskri ekki á hvert annað,“ heldur Bjarni áfram.
Ráðherrann átti að flytja opnunarávarpið á fundinum en skipulagið gekk þó ekki eftir.
„Ráðstefnan var yfirtekin af mótmælendum,“ segir Bjarni.
Á myndum af viðburðinum má sjá mótmælendur standa fremst í salnum með stóran borða sem á stendur: „Stjórnmálaslit viðskiptabann á Ísrael“.
Aðspurður kvaðst Bjarni ekki kunna nákvæm deili á mótmælendunum en þau hafi augljóslega verið að tala fyrir málefnum er tengjast átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs.
„Þau hafa gjarnan staðið fyrir framan ráðherrabústaðinn og verið með mótmæli annars staðar.“
Er þetta eitthvað sem lögreglan þarf að skoða, er þetta mál þess eðlis?
„Ég bara veit það ekki. Ég hinkraði við í nokkrar mínútur á svæðinu. Magga Stína var mætt þarna til að flytja langt ávarp sem hún öskraði yfir salinn og fyrir mér var ljóst að það var búið að yfirtaka ráðstefnuna þannig að ég bara yfirgaf svæðið. Ég var mættur þarna í öðrum tilgangi.“