Engin lending hjá flugumferðarstjórum

Félag íslenskra flugumferðarstjóra fundaði í dag með samninganefnd SA hjá …
Félag íslenskra flugumferðarstjóra fundaði í dag með samninganefnd SA hjá ríkissáttasemjara. mbl.is/Kristinn Magnússon

Félag íslenskra flugumferðarstjóra fundaði í dag með samninganefnd Samtaka atvinnulífsins í húsnæði ríkissáttasemjara, en flugumferðarstjórar hafa boðað verkföll í tvígang í næstu viku, dag­ana 12. og 14. des­em­ber, sex klukku­tíma í senn frá klukk­an fjög­ur á morgn­ana til klukk­an tíu, í aðflugs­svæðinu í kring­um Kefla­vík og Reykja­vík.

„Fundurinn gekk ágætlega og stóð í um það bil tvo tíma eða svo,“ segir Arnar Hjálmsson, formaður Félags flugumferðarstjóra, í samtali við mbl.is og bætir því við að staðan sé þó nánast óbreytt eftir fundinn. „Það voru svona einhverjar þreifingar og verið að reyna að finna einhverja þræði,“ segir formaðurinn.

Kemur í ljós hver framvindan verður

Næsti fundur er boðaður á mánudaginn og segir Arnar aðspurður að ekki sé tilefni til að hætta við vinnustöðvanir á þriðjudag og fimmtudag eftir það sem fram kom á fundi dagsins. „Við erum bara í miðjum viðræðum og það kemur í ljós hver framvindan verður, kannski verða einhver samtöl um helgina líka, ég bara veit það ekki,“ segir hann.

Myndirðu segja að fundurinn í dag hafi verið jákvæður eða neikvæður að þinni tilfinningu?

„Jákvæður,“ svarar Arnar um hæl.

Verði af fyr­ir­hugaðri vinnu­stöðvun stöðvast allt flug á áður­nefnd­um tíma að und­an­skildu sjúkra­flugi og öllu flugi á veg­um Land­helg­is­gæsl­unn­ar.

Kjara­samn­ing­ar flug­um­ferðar­stjóra hafa verið laus­ir frá 1. októ­ber síðastliðnum og hafa samn­ingsaðilar ekki náð sam­komu­lagi um nýj­an samn­ing eins og fram kemur hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert