Fatafella í hatursglæpaför lögreglunnar

Starfsfólk lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu pantaði fatafellu í gleðskap eftir námskeið …
Starfsfólk lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu pantaði fatafellu í gleðskap eftir námskeið um hatursglæpi og voru viðstaddir ekki á einu máli um uppátækið. mbl.is/Golli

Þrír starfsmenn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu pöntuðu þjónustu karlkyns fatafellu í fræðsluferð lögreglumanna og saksóknara við lögregluembætti til Póllands í nóvember. Frá þessu greinir Heimildin.

Kveður Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, kynningarfulltrúi embættisins, málið litið alvarlegum augum þar enda séu ríkar kröfur gerðar til starfsmanna embættisins um að vera til fyrirmyndar í hvívetna, að öðru leyti tjái hann sig ekki um málefni einstakra starfsmanna.

Heimildin hefur rætt við kunnuga og hefur þar upp úr að starfsfólkið hafi sótt námskeiðið „Hatursglæpir – uppgangur öfgaafla“ í Auschwitz.

Komu samferðamönnum sínum á óvart

Kvöld nokkurt að námskeiðshaldi loknu hafi þátttakendur gert sér glaðan dag og þrjár konur frá embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu pantað þjónustu karlkyns fatafellu og komið samferðafólki sínu að óvörum með tiltækinu.

Þrátt fyrir að áhorfendur hafi tekið fjölda ljósmynda og sáldrað þeim um lokaðan hóp samfélagsmiðilsins Snapchat mun fatafellan hafa strokið einhverjum viðstaddra andhæris og komst málið í hámæli er fram liðu stundir. Kveður Heimildin mikla ólgu innan embættisins vegna athæfisins.

Vanvirða, álitshnekkir eða rýrð

Vildi Gunnar Rúnar að sögn miðilsins ekkert staðfesta um afleiðingar – hvort áminningar hefðu verið veittar eða gripið til tímabundinna leyfa frá störfum.

Kveður mannauðsstefna lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á um að starfsmenn lögreglu skuli gæta þess að aðhafast ekkert í starfi sínu eða utan þess sem geti orðið þeim til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað rýrð á það starf er þeir vinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert