Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, fundaði í morgun með um sjö þúsund unglingum í grunnskólum borgarinnar þar sem seinkun á skólabyrjun á unglingastigi var til umræðu.
Dagur var þó ekki viðstaddur í eigin persónu heldur sátu nemendur í skólastofum sínum og fylgdust með borgarstjóranum í gegnum fjarfundabúnað.
Ásamt Degi voru þau Dr. Erla Björnsdóttir, sálfræðingur og sérfræðingur í svefni og Ólöf Kristín Sívertsen frá fagskrifstofu grunnskóla í Reykjavíkurborg.
Fundurinn var gagnvirkur og fengu nemendur tækifæri til að svara spurningum um efni fundarins í snjalltækjum.
Þá gátu þeir komið á framfæri spurningum og athugasemdum í gegnum kennara sem komu þeim áfram til pallborðsins.
Verða niðurstöður fundarins nýttar til að útfæra seinkun á upphafi skóladags en seinkun skólabyrjunar hefur verið til skoðunar um nokkurt skeið. Hafa tilraunir á slíku fyrirkomulagi gefið góða raun en í haust hefur starfshópur verið að störfum við að móta slíkar tillögur.
Samþykkti borgarráð í sumar að grunnur yrði lagður að þessum breytingum.