Fyrirvari eldgoss gæti orðið mjög skammur

Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.
Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrirvari hugsanlegs eldgoss nálægt Grindavík gæti verið afar stuttur, jafnvel aðeins tveir tímar. Í næstu viku mun skýrast betur hvenær hægt verður að tryggja ásættanlegt öryggi í Grindavík.

Þetta segir Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, sem bendir á að nýtt hættumatskort Veðurstofu Íslands staðfesti að innstreymi kviku sé hætt í kvikuganginum sem myndaðist 10. nóvember.

„Ákveðin kaflaskil“

„En á sama tíma heldur áfram kvikustreymi undir Svartsengi og landris þar. Það sem við erum að horfa á núna eru ákveðin kaflaskil,“ segir Víðir í samtali við mbl.is og bendir á að ef til eldgoss kæmi sé möguleiki á því að fyrirvari þess yrði afar skammur.

„Veðurstofan talar um að það geti verið allt niður í tvo tíma frá því að umbrot hæfust og að við sæjum eldgos á yfirborðinu,“ segir hann.

„En það getur gerst fljótlega en það getur líka gerst eftir langan tíma.“

Hættustigi ekki breytt

„Það er hreyfing og það er enn þá landris þarna og á meðan það er þá þurfum við að vera vel vakandi,“ segir Víðir og bætir við að hættustig almannavarna verði því enn í gildi.

„Hin hliðin á hættumatinu er ástandið í Svartsengi, sprungurnar sem hafa myndast þar, áhrifin á lagnir húsin í sigdalnum,“ segir hann.

„Við þurfum að vera viss um að þeirri atburðarás sé að einhverju leyti lokið áður en við förum að breyta hættumatinu fyrir Grindavík.“

Stórar sprungur hafa myndast í Grindavíkurbæ eftir harða jarðskjálfta og …
Stórar sprungur hafa myndast í Grindavíkurbæ eftir harða jarðskjálfta og kvikugang sem myndaðist undir bænum í síðustu viku. Grindavík Gríðarlegar skemmdir hafa orðið á mannvirkjum í bænum. Eggert Jóhannesson

Næsta vika fer í sprungufyllingar

Víðir segir að næsta vika verður „algjörlega undirlögð“ í því að fylla í sprungur á svæðinu. „Síðan munum við í framhaldi á því endurmeta hættumat fyrir Grindavík.“

Hann segir það ljóst að það sé ýmis þjónusta sem verði ekki hægt að veita í Grindavík nema með takmörkuðum hætti í allan vetur.

„Það eru skemmdir á skólabyggingum og leikskólum. Síðan eru opin svæði og leiksvæði jafnvel sprungin og opin. Það er ýmislegt sem þarf að vinna í áður en hægt verður að snúa til venjulegs lífs í Grindavík.“

Bláa lónið enn lokað

„Það eru flest fyrirtæki sem eru byrjuð á starfsemi í Grindavík og íbúar í Grindavík geta verið inni í bænum á þessum tíma. Það er ekkert að breytast,“ segir Víðir.

„Eftir helgina verður endurskoðað með starfsemi í Svartsengi,“ bætir hann við og nefnir þar bæði starfsemi Bláa lónsins og orkuversins í Svartsengi.

Núverandi lokun Bláa Lónsins mun gilda til 7 laugardagsins 14. desember og verður staðan þá endurmetin, samkvæmt tilkynningu á vef lónsins.

Bláa lónið er í Svartsengi þar sem hraði landrissins er …
Bláa lónið er í Svartsengi þar sem hraði landrissins er mikill. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skýrari mynd eftir næstu viku

„Við skiljum það að Grindvíkingar vilja komast heim til sín,“ segir Víðir og nefnir að almannavarnir vinni hörðum höndum að því að stytta þann tíma sem Grindvíkingar þurfa að vera utan heimabæjarins.

„Næsta vika mun segja okkur hvað það tekur langan tíma að tryggja ásættanlegt öryggi í Grindavík,“ segir hann.

Hvað þyrfti að breytast til þess að Grindvíkingar fengju að flytja aftur heim til sín?

„Það er eiginlega tvennt í sjálfu sér. Annars vegar að það verði einhverjar breytingar varðandi jarðvána. Við þyrftum að geta treyst á að ná að rýma bæinn á þeim tíma sem við hefðum. Við erum enn bara að átta okkur á því hvort það sé hægt með þeim fyrirvörum sem hugsanlega verða á umbrotum,“ svarar Víðir.

„Og hins vegar er það öryggið í Grindavík sjálfri. Það hefur auðvitað ekki reynt mikið á lagnir og annað slíkt. Fólk er svo lítið þarna þannig við vitum ekki alveg hvernig frárennslið er og hvað hitaveitan, kalda vatnið og rafmagnið þola mikið álag. Þetta hefur orðið fyrir gríðarlegri áraun og mikið af viðgerðum búið að vera, en líklega mikið eftir líka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert