„Hallast að því að þetta lognist út af“

Þorvaldur Þórðarson prófessor spáir í kvikuspilin undir Reykjanesskaga.
Þorvaldur Þórðarson prófessor spáir í kvikuspilin undir Reykjanesskaga. Samsett mynd

„Það er mjög áhugavert að þeir skuli vera komnir að þeirri niðurstöðu,“ segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is um það mat Veðurstofu Íslands frá því í fyrradag að innflæði hefði líklega stöðvast í kvikuganginn sem myndaðist 10. nóvember undir Sýlingarfelli og Hagafelli og teygði sig þaðan undir Grindavík.

Bendir Þorvaldur á að enn sé landris við Svartsengi þótt dregið hafi úr landrisi á öðrum stöðum undanfarnar vikur, „nema þarna fyrir norðan Þorbjörninn [...] en svo hefur líka hægst á landrisi austan við og má kannski túlka það þannig að það sé eiginlega stopp þar“ segir Þorvaldur. „Það hefur nú ekki mikil kvika verið að flæða inn í þessa sprungu, sem myndaðist 10. nóvember, síðustu vikur myndi ég halda. Þetta er allt að hægja á sér núna.“

Varnargarðar hafa risið hratt í kringum virkjunina sem kennd er …
Varnargarðar hafa risið hratt í kringum virkjunina sem kennd er við Svartsengi, eftir að ráðist var í framkvæmdirnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Blönduð áhrif á nesinu

Hvenær telur prófessorinn þá, miðað við stöðuna núna, hæð landriss og hraða, að dragi til einhvers konar tíðinda í þessum efnum?

„Ég er nú farinn að hallast að því að þetta lognist út af í þetta skiptið. Eins og ég hef sagt áður er landrisið við Svartsengi núna að nálgast þá hæð sem það var í fyrir 10. nóvember. Ef Svartsengi nær fyrri hæð má alveg búast við að eitthvað fari að draga til tíðinda að því gefnu að bara sé horft á þetta sem afleiðingar kvikuhreyfinga en ég vil eiginlega ekki horfa á þetta þannig,“ segir Þorvaldur.

Þess í stað telur hann um blönduð áhrif að ræða, einhver kvika hafi komið inn, það sé augljóst, en einnig sé um tektónískar hreyfingar að ræða, það er að segja hnik á plötum í jarðskorpunni, sem jafnvel gæti verið stærri þáttur en kvikan.

„Ef við tökum bara fallið sem varð í Svartsengi 10. nóvember eru tveir þriðju hlutar af því falli fyrir neðan núllpunktinn sem var fyrir, áður en Svartsengi fór að lyftast,“ útskýrir prófessorinn.

Voru Kröflueldar sambærilegir Svartsengi?

Er hann að lokum spurður út í samanburð Kröfluelda á áttunda og níunda áratug við umbrotin í Svartsengi. Er slíkur samanburður raunhæfur að hans bestu yfirsýn?

„Mér finnst að menn ættu að fara varlega í þann samanburð, þetta er öðruvísi jarðfræðilegt umhverfi sem við erum að tala um,“ svarar Þorvaldur.

„Í Svartsengi og Grindavík erum við með plötuskilin næstum því samhliða flekahreyfingunum, plöturnar renna lárétt hvor fram hjá annarri vegna sniðgengishreyfinga og það er að valda brotunum – en í Kröflu fóru plöturnar í öfuga átt hvor við aðra, þar ertu með hreina gliðnun sem við erum ekki með á Reykjanesskaganum og við verðum að taka tillit til þess að þótt margt sé svipað með atburðarásinni – landris, skjálftahrinur og land sígur – er samt sem áður þarna jarðfræðilegur munur sem við verðum að taka tillit til og getur valdið töluvert öðruvísi atburðarás en í Kröflu,“ segir prófessor Þorvaldur Þórðarson að lokum.

Sérfræðingar á Veðurstofu Íslands hafa líkt umbrotunum á Reykjanesskaga við …
Sérfræðingar á Veðurstofu Íslands hafa líkt umbrotunum á Reykjanesskaga við Kröfluelda. Þorvaldur segir að hafa verði í huga að svæðin eru ólík jarðfræðilega séð.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert