Norðurlöndin hafa lýst yfir stuðningi sínum við ákvörðun framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna að virkja heimild sína samkvæmt 99. grein stofnsáttmála SÞ um að krefja öryggisráðið um viðbrögð við átökunum á Gasasvæðinu.
Frá þessu greinir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Facebook. Hún segir að löndin hafi ritað framkvæmdastjóranum bréf þar sem þau greindu frá stuðningi sínum.
„Í yfirlýsingu okkar þrýsta Norðurlöndin á að öryggisráðið beiti sér til að stöðva þær skelfilegu mannúðarhörmungar sem blasa við okkur,“ skrifar forsætisráðherra.
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, skírskotaði til 99. greinar stofnsáttmála stofnunarinnar til að vara við yfirvofandi „mannúðar stórslysi“ og hvetja öryggisráð SÞ til að bregðast við ástandinu í Gasa. Þetta er aðeins í annað skiptið sem gripið hefur verið til greinarinnar.
Samkvæmt fréttastofu AP sagði Guterres í bréfi sínu til ráðsins, sem er skipað af 15 fulltrúum frá mismunandi löndum, að mannúðarkerfi Gasa væri að þrotum komið. Tveggja mánaða átök hafi valdið „hræðilegum þjáningum, eyðileggingu og þjóðaráfalli.“