Maxence Paul Daniel Johannes, erlendur ríkisborgari sem flutti 2,1 kg af kókaíni til landsins með flugi í lok september, hefur verið dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir brot sín. Var hann á leið frá Brussel í Belgíu til Keflavíkur og faldi efnin í fjórum niðursuðudósum í farangurstösku sinni.
Í dómi Héraðsdóms Reykjaness kemur fram að Maxence hafi játað brot sín skýlaust og ekki þyki ástæða til að draga hana í efa.
Fram kemur í dóminum að Maxence sé 21 árs gamall og hafi ekki áður sætt refsingu hér á landi.
Tekið er fram að horft hafi verið til játningarinnar og ungs aldurs mannsins við ákvörðun refsingar, auk þess sem svo virðist sem hann hafi gert sér far um að aðstoða lögreglu við rannsókn málsins. Á móti horfir það til refsiþyngingar hversu mikið magn efnanna var og hversu sterkt það var, en styrkleiki kókaínsins var 77-84%.
Auk fangelsisdómsins var Maxence gert að greiða tæplega 1,2 milljónir í sakarkostnað og þóknun verjanda síns.