Rannsókn á manndrápi á skemmtistaðnum Lúx við Austurstræti í júní er í eðlilegum farvegi. Það er ekki enn komið á borð héraðssaksóknara.
Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar.
Karlmaður á þrítugsaldri er grunaður um að banað Karolis Zelenkauskas, sem var 25 ára og frá Litháen. Átök sem leiddu til andlátsins áttu sér stað aðfaranótt laugardagsins 24. júní.
Manninum sem er grunaður var sleppt úr gæsluvarðhaldi um mánaðamótin júní/júlí þar sem skilyrði laga um meðferð sakamála sem lúta að gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna, voru ekki talin vera til staðar.
„Málið gengur ekki alveg eins hratt og þegar grunaður situr í gæsluvarðhaldi, því þá höfum við bara 12 vikur samtals til að klára það,” segir Grímur, spurður út í rannsóknina.