Styrkingar stóðust fyrstu áraunina

Miklar skemmdir urðu á lögninni í síðasta mánuði.
Miklar skemmdir urðu á lögninni í síðasta mánuði. Samsett mynd

Vatnslögnin sem liggur til Vestmannaeyja nær enn að sjá íbúum fyrir nægu neysluvatni, þrátt fyrir þær skemmdir sem urðu á lögninni í nóvember. Síðustu helgi voru settar styrkingar á lögnina sem stóðust fyrstu áraunina í miklum öldugangi.

„Já, þetta er enn þá í lagi,“ segir Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, spurður út í stöðuna.

„Það er búið að vera austan veður síðustu daga, mikil alda að austan, og hún hefur haldið það þessa daga. Við erum auðvitað bara ánægðir að sjá að hún skyldi þola þetta fyrsta veður síðan þetta gerðist,“ segir lögreglustjórinn og bætir við: „Hún stóðst fyrstu áraunina.“

Vill að almannavarnir festi kaup á svipuðum búnaði

Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum greindi frá því í gær að fyrirtækið hefði fest kaup á þremur gámum með hollenskum tæknibúnaði sem breytir sjó í drykkjarvatn. 

Ætla má að fyrsti gám­ur­inn komi til lands­ins milli jóla og ný­árs en hinir tveir fljót­lega á nýju ári. 

„Ég reikna með að ég geri tillögu til almannavarna um að almannavarnir hafi slíkan búnað í Vestmannaeyjum,“ segir Karl Gauti. 

„Það er varlegt að hafa slíkan búnað á vegum almannavarna á meðan ástandið er svona.“

Skylda að allir leggist á eitt

Spurður hvort samstarf við Vinnslustöðina um afnot af þessum gámum hafi komið til tals, ef í harðbakkann slær, segir Karl Gauti svo vera.

„Það er fullt samstarf við alla aðila, allir tilbúnir að hjálpa til, og í almannavarnaástandi er það náttúrulega bara skylda að allir leggist á eitt.“

Ekki með tölu sakborninga

Rannsókn á skemmdunum stendur enn yfir og er í fullum gangi. Skemmdirnar urðu þegar akkeri Hug­ins VE losnaði og fór í lögn­ina þegar bát­ur­inn sigldi inn til hafn­ar.

Lýtur rannsóknin meðal annars að því hvort skemmdirnar hafi orðið vegna mannlegra mistaka sem gæti þá fallið undir gáleysi.

Í kjölfar skemmdanna samdi Vinnslustöðin um starfs­lok við tvo skip­stjóra hjá fyr­ir­tæk­inu.

Aðspurður kveðst Karl Gauti ekki vera með tölu sakborninga.

„Menn fá stöðu sakbornings ef það er nokkur möguleiki á því að þeir gætu verið að varpa á sig sök í sínum framburði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert