Það eru rúmar tvær vikur til jóla og spennan er farin að magnast á mörgum heimilum landsins. Sinna þarf föstum liðum sem fylgja þessum árstíma en aðdragandi jólanna hefur þó verið að breytast síðustu ár.
Ekki virðist svo langt síðan helstu áminningar um það sem færi í hönd væri mandarínur og aðventukransar. Kannski að einhver stælist í smákökurnar þegar helstu sortir voru bakaðar um helgar. Síðar bættist jólabjór við og allt í einu varð það órjúfanlegur hluti af aðventunni hjá mörgum að fara á jólatónleika. Í dag kemst fólk varla leiðar sinnar í matvörubúðum fyrir jólavörum og á því dynja auglýsingar um ótrúlegustu hluti sem það getur keypt allan ársins hring en hefur nú verið sett í jólabúning.
Myndirnar sem fylgja þessari grein sýna brot af þeim vörum sem nálgast má í búðum þessa dagana. Allt gæðavörur sjálfsagt og ekkert út á þær að setja en flestar þeirra eru bara klæddar í jólaföt sem þær svo fara úr á nýju ári. Nýmjólkin bragðast örugglega nokkuð svipað í mars og hún gerir í desember þegar hún er komin í jólaumbúðir. Sama gildir um engjaþykkni og jógúrt. Kókómjólkin er reyndar með hvítu súkkulaði í þessum hátíðarbúningi. En svo er það jólagráðaosturinn. Ætli það verði haldin jól án hans? Líklega. Jólakaffið minnir voða mikið á venjulegt kaffi og sælgætið bragðast nokkurn veginn eins og það gerir hina 11 mánuði ársins.
Svo eru það jólahamborgararnir og jólapitsurnar. Jólabað fyrir bílinn og þannig mætti sjálfsagt áfram telja. Fólk hefur eflaust skiptar skoðanir á þessari þróun en einn vinsælasti skemmtikraftur landsins er sáttur og vill meira ef eitthvað er.
„Ég fagna þessari þróun. Hefðirnar mega breytast,“ segir Sólmundur Hólm skemmtikraftur. Sóli Hólm, eins og hann er jafnan kallaður, er mikið jólabarn og nýtur sín best á þessum árstíma. Um þessar mundir er hann með árlega jólaskemmtun sína í Bæjarbíói í Hafnarfirði þar sem uppselt er á tugi sýninga. Þegar Morgunblaðið ræddi við Sóla í gær voru 12 sýningar afstaðnar og hann var kominn í mikinn jólagír.
„Ég kalla mig Jóla Hólm frá miðjum nóvember svo ég get ekki verið að fetta fingur út í þetta. Hvað vitum við líka nema í framtíðinni geti fólk ekki hugsað sér jól án jólagráðaostsins,“ segir hann.
Sóli segir að vissulega stingi sumar vörur og nafngiftir í stúf en það megi allir vera með í jólagleðinni. „Jólahefðir verða kannski til út frá einhverju sem hlegið er að í fyrstu. Heldur þú að íslenskir afdalabændur með skyrbjúg hafi tekið vel í epli þegar þau komu hingað fyrst fyrir jólin? Börn í dag tengja ekki endilega við sömu hefðir og fullorðna fólkið. Börnin mín eru til dæmis ekki hrifin af malti og appelsíni. Ég elska það en einhver þeirra drekka það alls ekki. Ég vil því sjá þessa þróun fara miklu lengra ef eitthvað er.“