„Vil ekki ræða það að strákarnir séu vandamálið“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir segir neyðarástand ríkja í menntamálum á Íslandi.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir segir neyðarástand ríkja í menntamálum á Íslandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar-og nýsköpunarráðherra, segir niðurstöður PISA-könnunarinnar sýna fram á að ákveðið neyðarástand ríki hvað varðar menntamál í landinu. 

Hún kveðst ítrekað hafa lýst yfir áhyggjum yfir því að í sinni núverandi mynd bregðist menntakerfið drengjum sérstaklega. 

Menntun auki lífsgæði

„Ég myndi segja að það sé ákveðið neyðarástand,“ segir Áslaug Arna. „Menntun er auðvitað tæki til þess að jafna stöðu barna og að auka tækifæri barna hér á landi til þess að auka lífsgæði þeirra. Það er augljóst að við þurfum að standa okkur betur og það þarf að grípa til mjög fjölþættra aðgerða.“

Áslaug segist hafa sérstaklega miklar áhyggjur af stöðu drengja innan íslenska menntakerfisins. Hún segir rætur vandamálsins ekki liggja hjá drengjunum sjálfum, heldur viðbrögðum menntakerfisins og samfélagsins. 

„Ég vil ekki ræða það að strákarnir séu vandamálið eins og oft er gripið til, heldur þurfum við að átta okkur á því hvort kerfið sé að svara þeim breytingum sem eru að verða á samfélaginu okkar,“ segir Áslaug. 

„Ég hef bent á að við stöndum illa þegar við horf­um til þess hversu fáa drengi við erum að mennta úr há­skól­um og rótin að því er grunn­skóla­kerfið og hvernig við undirbúum nemendur. Við erum líka að sjá að Ísland hrapar milli ára er kemur að fjölda drengja sem aðeins er með grunn­skóla­próf á Íslandi.“

„Þurfum ekki alltaf að finna upp hjólið“

Að sögn Áslaugar er brýn þörf á umræðu um það hvernig hægt sé að stuðla að því að nemendum farnist betur innan skólakerfisins. Þá sé mikilvægt að menntamál séu sett í forgrunn til þess að hægt sé að taka höndum saman um breytingar og bætingar á menntakerfinu. 

„Það þarf auðvitað að vera almennileg umræða um það hvernig við ætlum að undirbúa nemendur og hvernig við viljum fá nemendur út úr skólakerfinu okkar. Þar tel ég gríðarlega mikilvægt að við höfum mælikvarða til að skoða og núna er PISA sá mælikvarði sem við höfum á árangur skólakerfisins okkar.

Við þurfum að þora að gera breytingar í menntakerfinu okkar, mæla árangur af þeim og ekki síst að horfa til annarra landa sem eru að gera vel. Við þurfum ekki alltaf að finna upp hjólið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert