„Alvarleg þróun“ ef óttast þarf öryggi stjórnmálamanna

Bjarni var þakin rauðum lit.
Bjarni var þakin rauðum lit. Ljósmynd/Aðsend

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem stofnunin segist harma „þá dapurlegu uppákomu“ sem átti sér stað á hátíðarfundi í Ver­öld, húsi Vig­dís­ar, í gær. 

Rauðu glimmeri var kastað yfir Bjarna Bene­dikts­son ut­an­rík­is­ráðherra og fundinum í kjölfarið aflýst.

Fundurinn var haldinn í samstarfi við forsætis- og utanríkisráðuneyti og átti þar að ræða um mikilvægi mannréttinda í heiminum í tilefni þess að 75 ár eru liðin frá samþykkt mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. 

„Því miður komu hávær mótmæli í veg fyrir að fundurinn gæti farið fram, auk þess að ráðist var að utanríkisráðherra sem ætlaði að ávarpa fundinn. Það er alvarleg þróun í samfélagi okkar ef stjórnmálamenn þurfa að óttast um öryggi sitt þegar þeir koma fram á opinberum vettvangi,“ segir í yfirlýsingunni. 

Frá fundinum.
Frá fundinum. Ljósmynd/Aðsend

Þá segir að vonast sé til þess að atvikið vísi ekki á það sem koma skal, „því að lýðræði og mannréttindi þrífast aldrei í samfélagi þar sem fólk vill ekki hlusta á skoðanir hvers annars“.

Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar, og Guðmundur Hálfdanarson, formaður stjórnar Alþjóðamálastofnunar, undirrita yfirlýsinguna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert