Dapurlegt að lögregla kaupi sér aðgang að líkama annarra

Drífa Snædal er talskona Stígamóta.
Drífa Snædal er talskona Stígamóta. Ljósmynd/Aðsend

Drífa Snædal, talskona Stígamóta, segir það áhyggjuefni að starfsmenn lögreglunnar hafi keypt sér þjónustu fatafellu í fræðsluferð í Póllandi. 

„Þetta er bara einstaklega niðurlægjandi fyrir þau sem stóðu að þessu. Ég skil ekki alveg hvernig þetta hefur gerst. Ég hélt við værum komin eitthvað lengra en þetta,“ segir Drífa í samtali við mbl.is. 

Greint var frá því í gær að þrjár starfskonur lögreglunnar hafi pantað karlkyns fatafellu í fræðsluferð í Póllandi um hatursorðræðu í nóvember. Hefur mörgum blöskrað atvikið.

Lögregla ætti að vita um afleiðingar fyrir einstaklinga

Helga Vala Helgadóttir lögfræðingur var gestur í vikulokunum á Rás 1 í morgun og varpaði fram spurningum um fatafelluna sem um ræðir:

„Hver var þessi einstaklingur sem var keyptur? Hver er bakgrunnur þess einstaklings? Við vitum hverjir starfa við þetta annars staðar í heiminum, oft á tíðum eru þetta fórnarlömb mansals.“

Drífa segir það geta verið að um sé að ræða að fórnalamb mannsals, þó að það sé ekki algilt. Lögregla ætti að vita að þessi iðnaður og athæfi innan hans geti haft afleiðingar fyrir einstaklinga. 

„Það er svolítið dapurlegt af lögreglunni að kaupa sér aðgang að líkama annarra.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert