Ekki traust milli Sólveigar og Vilhjálms

„Við Vilhjálmur Birgisson tölum saman á fundum.“

Þannig kemst Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar að orði þegar hún er spurð út í hvort talsamband sé milli hennar og Vilhjálms Birgissonar formanns Starfsgreinasambandsins (SGS) en mjög skarst í brýnu milli þeirra þegar síðustu kjarasamningar voru undirritaðir á almennum vinnumarkaði. Svo rammt kvað að ágreiningi milli þeirra að Efling sagði sig úr SGS.

Sólveig Anna situr fyrir svörum í nýjasta þætti Spursmála.

Sólveig Anna Jónsdóttir og Vilhjálmur Birgisson hafa eldað grátt silfur …
Sólveig Anna Jónsdóttir og Vilhjálmur Birgisson hafa eldað grátt silfur saman síðustu misseri. mbl.is/samsett mynd

Oftast sammála

„Og við erum yfirleitt sammála um flesta hluti þar. Enda er það svo að þær deilur sem hafa átt sér stað síðustu ár milli Eflingar og annarra hafa ávallt verið mjög málefnalegar deilur. Fólk hefur einfaldlega verið ósammála um aðferðir og pólitík.“

En það er ekki trúnaður á milli ykkar?

„Eins og allir vita þá gekk Efling úr SGS og það voru mikil átök sem fylgdu því. Við Vilhjálmur Birgisson við tölum saman á fundum og þar tölum við oft einu máli.“

Við getum haft þetta já og nei spurningu. Ríkir trúnaður á milli ykkar Vilhjálms Birgissonar?

„Ég tel að það geti ríkt trúnaður á milli okkar.“

En það gerir það ekki núna?

„Ég tel að þegar að því kemur, þegar það liggur fyrir hvernig fólk ætlar að fara fram í þessa kjarasamninga, sameinað eða sundrað, þá geti komist niðurstaða í það og ég held að sú niðurstaða geti verið góð og jákvæð.“

Viðtalið má sjá í heild sinni hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert