Farangur Chets gufaði upp

Tómas R. Einarsson spilaði með hinum heimsfræga djassista, Chet Baker, …
Tómas R. Einarsson spilaði með hinum heimsfræga djassista, Chet Baker, árið 1985 og rifjar það upp í nýrri bók. Ljósmynd/Ingimundur Magnússon

Djassunnendur landsins þekkja vel Tómas R. Einarsson sem spilar á kontrabassa af sinni alkunnu snilld. Tómasi, sem er nýorðinn sjötugur, fannst kominn tími til að gefa út æviminningar sínar, en hann hefur frá mörgu að segja frá viðburðaríkri ævi sem lituð er af tónlist og aftur tónlist. En hann lætur sér ekki nægja að gefa út ævisögu, heldur kemur út ljúf ballöðuplata núna rétt fyrir jólin sem inniheldur tvö gömul lög sem tekin voru upp á tónleikum í Gamla bíói árið 1985 en þar spilaði Tómas með hinum heimsþekkta djassista Chet Baker.

Kom til Íslands án farangurs

Spilamennskan hefur leitt Tómas víða um heim; til Evrópu, Bandaríkjanna, Asíu, Suður-Ameríku og Kúbu þar sem hann kolféll fyrir tónlist heimamanna. Á lífsleiðinni kynntist Tómas fjölmörgu tónlistarfólki, sumu heimsfrægu. Í febrúar árið 1985 kom hingað hinn heimskunni trompetleikari og djasssöngvari Chet Baker og fékk Tómas það hlutverk að spila með honum á tónleikum í Gamla bíói ásamt Kristjáni Magnússyni og Sveini Óla Jónssyni. Það var að vonum frábært tækifæri fyrir ungan og enn heldur óreyndan bassaleikara.

Tómas R. Einarsson varð nýlega sjötugur og gaf út ævisögu …
Tómas R. Einarsson varð nýlega sjötugur og gaf út ævisögu sína, Gangandi bassi. mbl.is/Ásdís

„Hann var mjög afslappaður þótt ferðalagið til Íslands hefði verið skrautlegt. Hann og þáverandi kærasta hans áttu að fljúga frá Los Angeles í gegnum New York til Íslands. Þau misstu af vélinni í Los Angeles og þar með fluginu í New York. Þá var gripið til þess ráðs að láta þau fljúga til London og þaðan hingað,“ segir hann og segir hafa staðið tæpt að þau næðu vélinni, sem var látin bíða eftir þeim í London.

„Þau komu hingað ansi léttklædd og farangurinn gufaður upp,“ segir Tómas og segir að næsta morgun hafi verið farið með Baker í búðir að dressa hann upp fyrir tónleikana sem áttu að hefjast klukkan þrjú.

„Djassvakningarmaðurinn Jónatan Garðarsson hringdi í umboðsmanninn hans og spurði hvort hann myndi borga fyrir ný föt á Chet Baker en hann svaraði: „Ekki séns.“ Jónatan kannaðist við Guðlaug Bergmann og datt í hug að fara með Baker í Karnabæ. Guðlaugur hafði verið á fyrri tónleikum Bakers á Íslandi 1955 og nefnir við hann að sitt uppáhaldslag væri My Funny Valentine. Chet segir þá að hann spili og syngi það nú ekki á öllum tónleikum lengur. „En ég geri allt fyrir þig,“ sagði hann. „Sé svo, verður My Funny Valentine greiðslan fyrir fötin,“ sagði kaupmaðurinn. Chet söng svo og blés þessa fínu útgáfu af laginu fyrir Gulla í Karnabæ.“

Hoppaði í okkar tóntegund

Tómas segir sjálfa tónleikana hafa verið ævintýralega því aðeins var æft í korter fyrir þá.

„Við æfðum byrjunina á tveimur lögum og Chet sagði fínt strákar; hittumst á eftir. Við höfðum kíkt á lög sem hann hafði hljóðritað árin á undan, en annars vissum við fátt. Það voru misþægilegar uppákomur, eins og þegar hann kynnir lag og kallar til okkar „blús í G“. Við byrjum á því en það hljómar alveg stórundarlega, hann spilaði nefnilega laglínuna í F. Þetta var ansi ómstrítt, svo ekki sé meira sagt. Hann hoppaði svo yfir í okkar tóntegund, en það hafa sjálfsagt margir skellt skuldinni á undirleikarana. En það var ekki þannig; þetta var ónákvæmni hjá Chet,“ segir Tómas. Baker lést þremur árum eftir Íslandstónleikana en hann féll út um glugga í Amsterdam, aðeins 58 ára gamall. Fíknin varð honum að falli.

„Chet spilaði mjög vel og var í góðu formi í Gamla bíói, sem var nú ekki alltaf þessi árin. Hann var stundum mikið í heróíni og kókaíni og þá hafði það sín áhrif.“

Tómas átti nokkur lög frá tónleikunum á kassettu sem hafði að geyma útvarpsþátt um tónleikana sem Ríkisútvarpið hljóðritaði.

„Þar mátti heyra ljómandi útgáfu af Don't Blame Me og svo My Funny Valentine. Fyrir tveimur árum datt mér í hug að það gæti verið gaman, ef ég myndi gera stafræna sjötugsafmælisplötu, að hafa með þessi lög úr Gamla bíói.“

Ítarlegt viðtal er við Tómas í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert