Fengu parta úr símaskrá frá bandaríska sendiráðinu

Heppnin var með hjónunum Ragnheiði Hreiðarsdóttur og Benedikt Inga Grétarssyni þegar þau stofnuðu Jólagarðinn í maí 1996.

Heildsali í Reykjavík hafði fengið sendingu af jólavörum of seint og komust hjónin á snoðir um það.

„Systir mín og [Ragnheiður] fengu að fara upp á háaloft í þeirri geymslu og gramsa í jóladótinu og við máttum bara fá það og borga það svo þegar það seldist,“ segir Benedikt og bætir við: „Þetta var afskaplega vænt fyrir okkur þegar við vorum að byrja.“

Ragnheiður og Benedikt ræddu um reksturinn, jólahefðir og margt fleira í hlaðvarpsviðtali við Morgunblaðið í tengslum við 110 ára afmæli blaðsins.

Hægt er að hlusta á brot úr viðtalinu í spilaranum hér fyrir ofan. Hlaðvarpsviðtalið í heild sinni má finna á öllum helstu hlaðvarpsveitum.

Fengu jólaskraut frá sylgjufyrirtæki

Starfsumhverfi fyrirtækja hefur breyst mikið á síðustu þrjátíu árum og alls ekki hlaupið að því að koma heilsárs jólagjafavöruverslun á koppinn í Eyjafirði árið 1996.

Ragnheiður rifjar upp að internetið hafi ekki verið búið að ná sér á strik á þessum tíma og þurftu hjónin því að beita öðrum brögðum til að komast í samband við heildsala.

„Ég man að við fengum senda parta úr símaskránni frá Bandaríska sendiráðinu – bandaríska símaskrá. Þetta er svo fjarlægt. Þeir seldu okkur og ég man að við fengum jólaskraut frá einhverju sylgjufyrirtæki, fyrirtæki sem gerði svona beltissylgjur. Þannig að það var ansi skrítið skrautið til að byrja.“

Nærri áttatíu handverksaðilar

Þá auglýstu hjónin einnig eftir íslensku handverki. 

„Við vorum með kannski nærri áttatíu handverksaðila, íslenska, í þessu litla húsi. Sumir voru að gera mikið en aðrir minna,“ segir Benedikt.

Býður jólahúsið enn upp á handverkum frá nokkrum af þessum handverksaðilum. 

„Þeir eru komnir á níræðisaldir,“ segir Benedikt.

„Sumir,“ bætir Ragnheiður við.

Ragnheiður Hreiðarsdóttir og Benedikt Ingi Grétarsson hafa rekið Jólagarðinn frá …
Ragnheiður Hreiðarsdóttir og Benedikt Ingi Grétarsson hafa rekið Jólagarðinn frá árinu 1996. mbl.is/Brynjólfur Löve
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert