Unnið er að því að styrkja Stamphólagjá, sprunguna sem liggur í gegnum Grindavík og er um tveggja kílómetra löng. Þá er vonast til þess að varnargarðar verði nær fullkláraðir um næstu helgi, að sögn Jóns Hauks Steingrímssonar, jarðverkfræðings hjá Eflu.
Tilgangurinn með því að styrkja Stamphólagjá er að bærinn ráði betur við þær jarðhræringar sem kunna að vera fram undan.
„Þessi sprunga heitir Stamphólagjá og það eru sögur um að krakkar hafi verið að leika sér í hellum fyrir ofan bæinn og á bátum,“ segir Jón Haukur í samtali við mbl.is.
Auk þess að byggja varnargarða hefur eitt verkefnið verið að fylla upp í gjána. „Það er verið að grafa sprunguna upp og setja styrkingar, eða fyllingar, svo göturnar geti staðið betur af sér einhverja hreyfingu,“ segir Jón Haukur. Hann segir að styrkingar séu mestar þar sem samgönguleiðir eru.
Jón Haukur segir það ekki vera æskilegt að endurbyggja hús sem liggja yfir sprungunni, jafnvel þó búið sé að fylla upp.
„Það eru alltaf hreyfingar á svona sprungum,“ segir hann og nefnir að samkvæmt byggingarreglugerð sé óheimilt að byggja yfir sprungur. Óljósara sé hins vegar hversu nálægt sprungum megi byggja. Sprungan hefur haft mest áhrif á hús á Víkurbraut og í Hóphverfi.
Hvað heldurðu að þetta taki langan tíma, frá ykkar bæjardyrum séð?
„Vonast er til að varnargarðarnir verði komnir langleiðina um næstu helgi,“ segir hann, en um er að ræða fjóra kílómetra af varnargörðum.
Þá segir Jón Haukur að verið sé að vinna í því að gera Grindavíkurbæ að einhverju leyti starfshæfan.
„Það ætti kannski að geta orðið einhvern tímann um næstu helgi, án þess að það sé eitthvað formlegt mat. Það er ekkert rosalega fjarlægt. Ákvörðunin er samt alltaf almannavarna og lögreglustjóra um afléttingu á rýmingu. Eins og staðan er núna þá er bærinn ekki starfhæfur og hann er beinlínis hættulegur útaf sprungunum.“