Mikill eldur kviknaði í bílskúr á Vesturbraut í Grindavík síðdegis í dag. Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri slökkviliðsins í Grindavík, segir í raun heppni að ekki hafi verr farið.
„Húsráðendur voru heima, en skúrinn er ekki áfastur húsinu heldur er frístandandi svo það er í raun heppni að þetta fór ekki verr,“ segir Einar í samtali við mbl.is.
Hann segir slökkvilið Grindavíkur hafa brugðist skjótt við enda topp mannskapur sem hafi verið á vakt. Kallað hafi verið til aðstoðar Brunavarna Suðurnesja til vonar og vara.
Segir Einar slökkviliðsmenn nú ganga frá málum á vettvangi og ganga úr skugga um að glóð lifi ekki einhversstaðar í rústunum. Ekki er vitað um upptök eldsins að svo stöddu.
Grindvíkingar hafa enn ekki fengið að snúa aftur á heimili sín að fullu, vegna jarðhræringa og eldgosahættu á svæðinu.
Er eitthvað sem er gott að hafa í huga sem húseigandi í Grindavík varðandi eldvarnir og frágang á heimilum?
„Já bara taka öll óþarfa rafmagnstæki úr sambandi og ganga úr skugga þegar þú gengur út af heimili þínu að áhætturnar séu sem minnstar,“ segir Einar.